Mainoo og Garnacho gætu verið seldir í sumar - Cunha hefur áhuga á að fara í stærra félag - Guardiola fúll út í Walker
   þri 10. desember 2024 19:40
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Liverpool svo gott sem komið í 16-liða úrslit
Mohamed Salah gerði sigurmarkið úr vítaspyrnu
Mohamed Salah gerði sigurmarkið úr vítaspyrnu
Mynd: Getty Images
Alisson var frábær í endurkomu sinni
Alisson var frábær í endurkomu sinni
Mynd: Getty Images
Liverpool er skrefi nær því að komast í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa unnið nauman 1-0 sigur á Girona á Spáni í kvöld, en liðið er með fullt hús stiga eftir sex umferðir.

Gestirnir frá Liverpool fóru betur af stað. Joe Gomez átti skalla sem Paulo Gazzaniga varði og þá sá hann einnig við Darwin Nunez aðeins nokkrum mínútum síðar.

Girona-menn sem spiluðu mjög agaða lágvörn fengu einnig færi til að skora í fyrri hálfleiknum en þeirra besta færi kom á 12. mínútu leiksins.

Boltinn kom frá vinstri og inn í teiginn á Daley Blind sem var aleinn á auðum sjó en hitti ekki boltann sem fór á Alejandro Frances. Hann átti hörkuskot en Alisson Becker, sem var að snúa aftur úr meiðslum, var vandanum vaxinn í markinu.

Alisson þurfti að vera vel á verði næstu mínútur á eftir. Hann varði frá Bryan Gil úr teignum og síðan aftur frá Miguel Gutierrez.

Eftir það voru það Liverpool-menn sem voru að reyna að brjóta niður vörn Girona. Nunez fékk besta færið er Mohamed Salah stakk boltanum inn fyrir á úrúgvæska framherjann en aftur varði Gazzaniga frá honum.

Margir stuðningsmenn eru orðnir þreyttir á að þurfa að bíða eftir því að Nunez finni meiri stöðugleika sem fremsti maður liðsins. Hann virðist hafa allt í vopnabúri sínu nema það allra mikilvægasta — sem er að klára færin.

Sprækasti leikmaður Girona fram á við var Kólumbíumaðurinn Yaser Asprilla sem á köflum lék sér að leikmönnum Liverpool og átti þá hörkutilraun fyrir utan teig sem Alisson þurfti að hafa sig allan í að verja.

Ágætis skemmtun í fyrri hálfleik en engin mörk. Það breyttist í þeim síðari.

Girona gat tekið forystuna í upphafi síðari hálfleiks er Arnaut Danjuma kom sér í gott færi en Alisson varði enn og aftur. Hollendingurinn verið afar kaldur fyrir framan markið á tímabilinu og aðeins skorað tvö mörk í öllum keppnum.

Þegar tæpur klukkutími var liðinn af leiknum fengu gestirnir í Liverpool vítaspyrnu er Donny van de Beek fór aftan í Luis Díaz í teignum. Dómarinn var sendur í VAR-skjáinn og í kjölfarið benti hann á punktinn.

Mohamed Salah steig á punktinn. Gazzaniga var svo góður að benda Salah á að skjóta í vinstra hornið sem hann gerði og skoraði af öryggi en Gazzaniga skutlaði sér í hægra hornið. Annað mark hans í Meistaradeildinni á þessu tímabili og 50. markið sem hann gerir í keppninni og komst þar með í fámennan elítuhóp þar sem hann er aðeins ellefti leikmaðurin til að ná þessum áfanga.

Leikurinn róaðist töluvert eftir markið og náði hvorugt liðið að skapa sér eitthvað af viti. Trent Alexander-Arnold komst næst því að bæta við öðru þegar sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma er Liverpool fékk aukaspyrnu en Gazzaniga varði hana aftur fyrir endamörk.

Girona reyndi að færa sig aðeins framar síðustu mínúturnar í þeirri von um að ná inn jöfnunarmarki en það kom aldrei og lokatölur því 1-0, Liverpool í vil.

Liverpool er með fullt hús stiga eftir sex leiki og svo gott sem komið í 16-liða úrslit, en það verður líklegast endanlega staðfest síðar í kvöld. Girona er á meðan í 30. sæti með 3 stig og eins og staðan er núna fer liðið ekki í umspil.

Króatíska liðið Dinamo Zagreb gerði þá markalaust jafntefli við Celtic í Króatíu.

Celtic er með 9 stig í 17. sæti á meðan Zagreb er með 8 stig í 21. sæti. Bæði lið eru í umspilssæti eins og staðan er á þessu augnabliki, en það getur margt breyst eftir leiki kvöldsins.

Úrslit og markaskorarar:

Dinamo Zagreb 0 - 0 Celtic

Girona 0 - 1 Liverpool
0-1 Mohamed Salah ('63 , víti)
Athugasemdir
banner
banner
banner