Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   lau 11. febrúar 2023 13:40
Aksentije Milisic
Lengjubikarinn: Mögnuð endurkoma ÍA gegn Vestra - HK fór létt með Grindavík
Viktor setti tvennu.
Viktor setti tvennu.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Þrenna hjá Atla.
Þrenna hjá Atla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

ÍA 4-3 Vestri
0-1 Benedikt Warén ('13)
0-2 Vladimir Tufegdzic ('21)
0-3 Benedikt Warén ('44)
1-3 Viktor Jónsson ('58)
2-3 Haukur Andri Haraldsson ('63)
3-3 Viktor Jónsson ('71)
4-3 Gísli Laxdal Unnarsson ('85)


Það voru tveir leikir á dagskrá í dag í Lengjubikar karla en í A-deildinni var spilað í riðli 1.

ÍA og Vestri áttust við í Akraneshöllinni í hreint ótrúlegum fótboltaleik. Bæði lið munu spila í Lengjudeildinni næsta sumar.

Þegar flautað var til leikhlés voru gestirnir þremur mörkum yfir og stefndi því margt í sigur Vestra í leiknum.

Skagamenn kveiktu heldur betur á sér í síðari hálfleiknum og var það Viktor Jónsson sem hóf endurkomuna og Haukur Andri Haraldsson minnkaði muninn í eitt mark þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Viktor Jónsson setti sitt annað mark í leiknum og jafnaði metin. Það var svo Gísli Laxdal Unnarsson sem fullkomnaði magnaða endurkomu ÍA og tryggði liðinu sigur í sjö marka leik.

HK 4-0 Grindavík
1-0 Atli Arnarson ('30)
2-0 Atli Arnarson - Víti ('68)
3-0 Tumi Þorvarsson ('88)
4-0 Atli Arnarson ('90)
Rauð spjöld: Arnþór Ari Atlason (HK) ('52), Marinó Axel Helgason (Grindavík) ('74), Eiður Atli Rúnarsson (HK) ('77), Dagur Austmann Hilmarsson (Grindavík) ('90)

Í sama riðli áttust við HK og Grindavík en í þeim leik voru skoruð fjögur mörk og litu fjögur rauð spjöld dagsins ljós.

Atli Arnarson kom HK í forystu en Grindavík gat svo jafnað metin vítapunktinum. Guðjón Pétur Lýðsson tók spyruna en skaut yfir markið.

HK fékk rautt spjald í byrjun síðari hálfleiks og var Grindavík lengi vel einum manni fleiri en náði ekki að nýta sér liðsmuninn. 

Atli gerði sitt annað mark er hann kom HK í 2-0 en honum brást ekki bogalistinn af vítapunktinum.

Marino Axel fékk rautt í liði Grindavíkur á 74. mínútu og einungis þremur mínútum síðar fékk HK sitt annað rauða spjald þegar Eiður Atli var sendur í sturtu.

Tumi Þorvarsson, sem er fæddur árið 2005, skoraði þriðja mark HK og það var síðan Atli sem rak síðasta naglann í kistu Grindavíkur er hann fullkomnaði þrennu sína. Hann skoraði þá beint úr aukaspyrnu í uppbótartímanum.

Dagur Austmann Hilmarsson fékk síðan rautt spjald undir lokin í liði Grindavíkur.

ÍA og HK eru því með þrjú stig eftir fyrsta leik en Vestri og Grindavík með núll.


Athugasemdir
banner
banner