Arsenal orðað við fjóra sóknarmenn - Real Madrid að sækja bróður Mbappe líka - Zidane efstur á lista Ratcliffe - Barcelona á eftir De Gea
   sun 11. febrúar 2024 22:05
Brynjar Ingi Erluson
Afríkukeppnin: Fílabeinsströndin meistari í þriðja sinn eftir ævintýralegt mót
Fílabeinsströndin er meistari í þriðja sinn
Fílabeinsströndin er meistari í þriðja sinn
Mynd: Getty Images
Þakið ætlaði af þegar Haller skoraði sigurmarkið
Þakið ætlaði af þegar Haller skoraði sigurmarkið
Mynd: Getty Images
Nígería 1 - 2 Fílabeinsströndin
1-0 William Ekong ('38 )
1-1 Franck Kessie ('62 )
1-2 Sebastien Haller ('81 )

Fílabeinsströndin er Afríkumeistari árið 2024 eftir ótrúlegt ævintýri en liðið vann 2-1 endurkomusigur á Nígeríu í úrslitaleiknum í Abidjan í kvöld.

Vonir Fílabeinsstrandarinnar voru litlar sem engar eftir riðlakeppnina.

Liðið hafnaði í 3. sæti A-riðils og var ekki talið líklegt til að vera eitt af fjórum liðum til að fara áfram í 16-liða úrslit, en það breyttist í síðustu leikjum riðlakeppninnar og fór það svo að liðið komst áfram.

Þjálfarinn Jean Louis-Gasset var rekinn og var Emerse Fae, fyrrum leikmaður Reading, fenginn til þess að stýra liðinu til bráðabirgða, en koma hans breytti öllu.

Hann gaf liðinu von og sýndi þeim að allir vegir væru færir og í kvöld lyfti liðið Afríkubikarnum í þriðja sinn í sögu þjóðarinnar.

Nígeríumenn voru taldir líklegastir til árangurs og tókst einum besta leikmanni mótsins, William Troost Ekong að koma þeim í forystu á 38. mínútu með skalla eftir hornspyrnu.

Fílabeinsstrendingar gáfust ekki upp. Franck Kessie jafnaði með skalla eftir hornspyrnu þegar hálftími var eftir áður en Sebastien Haller gerði sigurmarkið níu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma eftir frábæra fyrirgjöf Simon Adingra.

Það var augljós uppgjöf í liði Nígeríu eftir markið. Liðið kastaði mörgum mönnum fram í lokin en vörn Fílabeinsstrandarinnar var skipulögð og stóð sóknarþunga Nígeríu af sér.

Magnaður sigur og magnað mót sem Fílabeinsströndin hefur átt. Emerse Fae færði heimamönnum bikarinn við mikinn fögnuð og væri algerlega galið ef hann fær ekki langtímasamning hjá fótboltasambandinu eftir þetta ævintýri.
Athugasemdir
banner
banner
banner