Á morgun klukkan 19:15 heimsækir KR Garðabæinn og mætir þar Stjörnunni. Leikurinn er fyrsti leikur 2. umferðar í Bestu deildinni.
Fótbolti.net ræddi við Axel Óskar Andrésson, leikmann KR, og spurði hann út í leik morgundagsins og einnig út í fyrsta leikinn gegn Fylki.
Fótbolti.net ræddi við Axel Óskar Andrésson, leikmann KR, og spurði hann út í leik morgundagsins og einnig út í fyrsta leikinn gegn Fylki.
„Ég horfði á leikinn þeirra gegn Víkingi. Þetta er hörkulið og hörku flottir íþróttamenn í þessu liði. Ég hlakka til að máta mig á móti flottum framherja og fljótum leikmönnum," sagði Axel.
„Við þurfum að bera virðingu fyrir því að þeir eru góðir í mörgum hlutum. Við förum út í þennan leik eins og hina þrjá leikina sem ég hef spilað með KR - markmiðið er alltaf að fara út og vinna leikinn."
Búinn að ímynda sér að spila í rokrassgati og kulda
Axel Óskar lék sinn fyrsta leik í efstu deild síðasta fimmtudag þegar KR lagði Fylki í Árbænum,
„Það var ógeðslega gaman, var eiginlega alveg eins og ég var búinn að ímynda mér að það yrði, var búinn að ímynda mér að spila í rokrassgati og kulda. Vindurinn breytir fótboltanum svo mikið, það setti líka strik í leikinn og útskýrir að hluta af hverju það voru svona mörg mörk. Það var t.d. augnablik einu sinni þegar ég átti sendingu sem átti að fara á Guy í markinu en boltinn stoppaði á leiðinni. Ég þarf aðeins að læra á vindinn. Ég hef alveg spilað í vindi, en þetta er aðeins meira öfgakennt."
Hvernig fannst þér þú spila í leiknum?
„Mér fannst ég bara spila vel og er sáttur með fyrsta leikinn minn. Sem varnarmaður er samt ekki markmiðið að fá á sig þrjú mörk. Fylkismenn voru bara sprækir og þetta var fínn leikur til að byrja á. Ég hlakka enn meira til að spila á morgun."
Átti ekki von á þessum látum
Stuðningsmannasveit KR söng allan tímann og lét sveitin vel í sér heyra.
„Gregg er búinn að segja í mörgum viðtölum að KR á flesta stuðningsmenn á Íslandi. KR vill dálítið virkja stuðningsmannasveitina aftur. Mér fannst þetta geggjuð byrjun á því. Ef ég á að vera hreinskilinn þá átti ég ekki von á svona þvílíkum látum í nístingskulda í 98 mínútur. Manni var ógeðslega kalt eftir leik, en það voru allir ennþá uppi í stúku, alveg magnað."
„Ég hafði ógeðslega gaman af þessu, þetta kom mér ógeðslega óvart. Ég vissi að KR átti marga stuðningsmenn... ég man að fyrsti leikurinn sem ég fór á í efstu deild var á KR-vellinum og í minningunni man ég eftir mikið af fólki. Það var öðruvísi að upplifa þetta sjálfur núna sem leikmaður."
Ber virðingu fyrir því sem Emil hefur gert
Axel nefndi í byrjun að hann sé að fara máta sig við framherja. Sá framherji er Emil Atlason, markakóngur síðasta tímabils. Er öðruvísi undirbúningur fyrir leik gegn Emil og leik gegn minni og hraðari framherjum Fylkis?
„Að sjálfsögðu ber maður virðingu fyrir því sem Emil hefur gert síðustu ár, hann er búinn að vera hörkugóður og er hörkuframherji. Ég fer samt eins inn í alla leiki, en það væri samt heimskulegt að skoða ekkert hvað hann gerir. Umfjöllunin um íslenskan fótbolta er orðin svo miklu meiri og það er hægt að nálgast öll gögn. Ég hlakka til að máta við hann og þessa flottu leikmenn hjá þeim," sagði Axel að lokum.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 22 | 15 | 4 | 3 | 56 - 23 | +33 | 49 |
2. Breiðablik | 22 | 15 | 4 | 3 | 53 - 28 | +25 | 49 |
3. Valur | 22 | 11 | 5 | 6 | 53 - 33 | +20 | 38 |
4. ÍA | 22 | 10 | 4 | 8 | 41 - 31 | +10 | 34 |
5. Stjarnan | 22 | 10 | 4 | 8 | 40 - 35 | +5 | 34 |
6. FH | 22 | 9 | 6 | 7 | 39 - 38 | +1 | 33 |
7. Fram | 22 | 7 | 6 | 9 | 31 - 32 | -1 | 27 |
8. KA | 22 | 7 | 6 | 9 | 32 - 38 | -6 | 27 |
9. KR | 22 | 5 | 6 | 11 | 35 - 46 | -11 | 21 |
10. HK | 22 | 6 | 2 | 14 | 26 - 56 | -30 | 20 |
11. Vestri | 22 | 4 | 6 | 12 | 22 - 43 | -21 | 18 |
12. Fylkir | 22 | 4 | 5 | 13 | 26 - 51 | -25 | 17 |
Athugasemdir