Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 11. júní 2022 11:29
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Lýst eftir grunngildunum: Hugleiðingar um stöðu karlalandsliðsins í knattspyrnu
Pistill eftir Viðar Halldórsson
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Greinarhöfundur, Viðar Halldórsson.
Greinarhöfundur, Viðar Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á undir högg að sækja. Eftir undraverðan árangur liðsins á undanförnum árum þá hefur hallað undan fæti, svo mjög að knattspyrnuáhugafólk virðist hafa verulegar áhyggjur af gangi mála. Mig langar í þessum stutta pistli að koma inn á nokkra punkta sem tengjast núverandi stöðu liðsins.


Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hver „eðlileg” staða Íslands er í alþjóðafótbolta. Ég myndi telja að eðlileg staða okkar á FIFA-listanum væri einhvers staðar á milli 40 og 70 (sem er sennilega í kringum meðaltal síðustu 20 ára). Að Ísland sé í sæti 18 eða 120 sæti á FIFA-listanum er því óeðlilegt til lengdar þó svo að slíkar stöður hafi komið upp. Staða liðsins leitast alltaf að meðaltalinu (það sem kallast á ensku regression to the mean effect). Fall landsliðsins var því fyrirséð (þó það sé kannski stærra en æskilegt væri).

Með öðrum orðum þá getum við ekki gert þær kröfur á landsliðið að það endurtaki árangur síðustu missera; því sá árangur var undantekning frá reglunni. Að því sögðu er þó sjálfsagt að stefna á að komast á stórmót í nánustu framtíð. En gerum okkur grein fyrir því að það markmið er krefjandi og torsótt.

Þar fyrir utan er landsliðið að ganga í gegnum ansi brött kynslóðaskipti (og sennilega of brött ef eitthvað er, sem skýrir að miklu leyti stöðu liðsins). Segja má að það hafi verið haldið fulllengi í það sem kallast gamla bandið í heild sinni, sem hægði á eðlilegri endurnýjun liðsins, auk þess sem frægðin reyndist okkur fallvölt utan vallar. Það gerði það að verkum að ákveðnir eldri og reyndari leikmenn heltust of snemma úr lestinni.

Með öðrum orðum þá hefur blöndun liðsins ekki gengið upp, þar sem eldri og reyndari leikmenn hafa ekki náð að skóla yngri kynslóðina til, og yngri kynslóðin hefur ekki fengið að þroskast á eðlilegan hátt inn í liðið, og taka við smám saman eins og æskilegt er.

Það er aftur á móti mikilvægt fyrir okkur að læra af þeim stórkostlega árangri sem íslenska karlalandsliðið náði á undanförnum árum. Árangur í hópíþróttum, eins og í knattspyrnu, byggir í grunninn á þremur meginbreytum: á gæðum leikmanna, á skipulagi liðs, og liðsstemningu. Ef við höfum ekki meiri gæði en andstæðingar okkar (sem við Íslendingar höfum sjaldnast sökum fámennis þjóðarinnar) þá verðum við að vera með frábært skipulag og afburða liðsstemningu.

Ég vil halda því fram að við Íslendingar getum ekki unnið stærri þjóðir í íþróttum án þess að vera með rétta skipulagið og vera með sterkari liðsheild og meiri baráttu á vellinum, en andstæðingar okkar. Það hefur verið okkar einkennismerki á íþróttasviðinu; sterkt skipulag og íslenska hjartað. Þetta á við í öllum íþróttum. Því miður, virðist þetta skorta í liðinu í dag.

Það eru ekki góðu úrslitin sem ég sakna mest, heldur það að við virðumst hafa týnt grunngildunum okkar (sem eru forsenda góðu úrslitanna). Þegar maður horfir á liðið spila þá sér maður ekkert af þessum gildum sem við þurfum að hafa fram yfir aðra. Það virðist ekki vera neitt íslenskt við íslenska landsliðið í dag.

Liðið er bara eins og hvert annað lið. Og ef íslenska landsliðið er eins og hvert annað lið þá ráðast úrslitin fyrst og fremst af gæðum leikmanna (sem er okkur sjaldnast í hag), en ekki þessum íslenska karakter sem hefur reynst okkur ómetanlegur í gegnum tíðina og lagt grunninn að merkum afrekum okkar á móti stórþjóðum í íþróttum.

Að þessu sögðu þá hef ég trú á þessum ungu leikmönnum sem skipa íslenska landsliðið í dag. Ég þekki suma þeirra og veit að þeir eru bæði góðir í fótbolta og vel gerðir ungir menn. En það virðist enn vera langt í land með að ná að besta það sem þeir hafa fram að færa á vellinum. Það er oft sagt að leikmenn geri lið góð. Ég vil aftur á móti halda því fram að góð lið geri leikmenn góða. Og það er einmitt það sem vantar.

Ég sakna þess að sjá ekki vel skipulagt og formað lið sem einkennist af baráttugleði, ósérhlífni, samstöðu, sigurvilja og leikgleði. Þannig höfum við í gegnum tíðina myndað lið sem hafa orðið að einhverju meiru en summu eininganna sem mynda þau. Við þurfum þannig lið og stemningu sem hjálpar okkar ungu leikmönnum að ná sínu besta fram. Það eru þannig lið sem hafa fengið þjóðina í lið með sér og það eru þannig lið sem hafa unnið okkar stærstu sigra á íþróttavellinum. Íslensk íþróttasaga sýnir okkur þetta svart á hvítu.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu getur án vafa orðið aftur slíkt lið. Fyrsta verkefnið er að finna aftur grunngildin sem við vitum að skila okkur árangri. Þau eru grunnurinn sem við byggjum allt annað ofan á. Ég lýsi því hér með eftir grunngildunum sem hafa áður unnið liðinu hug og hjörtu þjóðarinnar og skilað okkur árangri á íþróttavellinum. Þessi grunngildi eru trompin okkar. Við megum ekki kasta þeim frá okkur. Við höfum einfaldlega ekki efni á því.

Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og íþróttaráðgjafi.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner