Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   sun 11. júlí 2021 23:01
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimir og Guðni Th. ræddu um „djarfa ákvörðun" Southgate
Gareth Southgate hughreystir Saka eftir leik.
Gareth Southgate hughreystir Saka eftir leik.
Mynd: EPA
Sancho klikkaði.
Sancho klikkaði.
Mynd: EPA
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, er mikið gagnrýndur fyrir val sitt á vítaskyttum í úrslitaleik Evrópumótsins í kvöld.

Svona spilaðist vítaspyrnukeppnin:
1-0 Domenico Berardi skoraði
1-1 Harry Kane skoraði
1-1 Andrea Belotti klúðraði
1-2 Harry Maguire skoraði
2-2 Leandro Bonucci skoraði
2-2 Marcus Rashford klúðraði
3-2 Federico Bernardeschi skoraði
3-2 Jadon Sancho klúðraði
3-2 Jorginho klúðraði
3-2 Bukayo Saka klúðraði

Southgate hefur verið gagnrýndur fyrir að láta ábyrgðina hvíla á ungum leikmönnum, hvað þá helst hinum 19 ára gamla Bukayo Saka sem tók síðustu spyrnu Englands. Marcus Rashford og Jadon Sancho klikkuðu einnig en þeir komu kaldir inn í blálokin.

„Hann hefur allt þetta mót verið djarfur í ákvörðunum. Ef þetta heppnast, þá hefði hann verið besti þjálfarinn í keppninni - alveg klárlega," sagði Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari, á Stöð 2 Sport í kvöld.

„Við horfðum á hvorn annan inn í græna herbergi þegar þeir gerðu þessa skiptingu. Í fyrsta lagi, þá tekur hann miðjumann og varnarmann út af, og setur tvo sóknarmenn inn á. Það eru enn þrjár mínútur eftir af leiknum. Rashford var hægri bakvörður. Ég hugsaði: 'Af hverju fara Ítalir ekki upp vinstri kantinn og láta reyna á hann?' Hann riðlaði algjörlega taktíkinni. Yfirleitt gerir maður ekki svona. Hann hugsaði að hann yrði að setja þá inn á til að taka víti."

„Svo kemur alltaf spurningin: 'Viltu setja leikmann sem hefur kannski ekki snert boltann, inn á til að taka svona mikilvæga spyrnu?' Þetta eru líka allt strákar í kringum tvítugt með þjóðina á herðunum. Þetta var klárlega löngu ákveðið að þessir menn ættu að taka vítaspyrnu. Hrós að þora að taka þessa ákvörðun en hún lítur illa út í dag," sagði Heimir.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti þjóðarinnar, mætti líka í sett hjá Stöð 2 Sport.

Um þetta allt saman sagði hann: „Það er kannski ágætt fyrir þessa þrjá ungu drengi að deila þessum byrðum. Þetta er sameiginlegt skipbrot. Breska pressan fer ekki í það að beina spjótum sínum að einhverjum einum. Þeir eru þarna þrír og svo þjálfarinn sem mun fá sinn skerf af gagnrýni fyrir þessa djörfu ákvörðun."

„Þetta var ekki vítaspyrnukeppni þar sem einn þurfti að bera byrðarnar eins og til dæmis Mbappe hjá Frökkum fyrr í keppninni. Hann fékk ekki mikinn stuðning hjá liðsfélögunum sínum," sagði Guðni en hann hrósaði Ítölunum fyrir mikla liðsheild.
Athugasemdir
banner