Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   fim 11. júlí 2024 20:27
Ívan Guðjón Baldursson
Sambandsdeildin: Blikar misstu niður tveggja marka forystu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tikves 3 - 2 Breiðablik
0-1 Viktor Karl Einarsson ('13)
0-2 Kristófer Ingi Kristinsson ('30)
1-2 Kristijan Stojkovski ('74)
2-2 Martin Stojanov ('80)
2-3 Leonardo Guerra De Souza ('82)

Það voru nokkur íslensk lið sem mættu til leiks í forkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld, þar sem Breiðablik heimsótti Tikves til Norður-Makedóníu og komst í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik.

Viktor Karl Einarsson og Kristófer Ingi Kristinsson skoruðu mörkin, Viktor Karl gerði það fyrra eftir fyrirgjöf frá Ísaki Snæ Þorvaldssyni og Kristófer Ingi það seinna með frábærri afgreiðslu eftir fyrirgjöf frá Viktori Karli.

Blikar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik þó að Makedónarnir hafi einnig fengið sín færi. Í síðari hálfleik var aftur á móti aðeins eitt lið á vellinum, þar sem heimamönnum í Tikves tókst að snúa slæmri stöðu við og sigra leikinn.

Tikves gerði þrefalda skiptingu í leikhlé og komust heimamenn nokkrum sinnum nálægt því að minnka muninn áður en Kristijan Stojkovski skoraði loks, eftir góða sendingu innfyrir vörnina.

Stojkovski kom boltanum í netið á 74. mínútu og við það opnuðust flóðgáttirnar. Martin Stojanov og Leonardo Guerra De Souza bættu sitthvoru markinu við eftir slakan varnarleik Breiðabliks og staðan orðin 3-2.

Blikar fengu einnig færi sem sköpuðu þó ekki mikla hættu og komust heimamenn í Tikves nálægt því að skora fjórða markið sitt, en boltinn rataði ekki í netið og urðu lokatölur 3-2. Blikar þurfa því sigur á heimavelli.

Til gamans má geta að það er rúmlega 30 stiga hiti úti í Makedóníu og því voru vatnspásur fyrir leikmenn bæði í fyrri og seinni hálfleik. Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála í seinni leiknum á gervigrasinu í Kópavogi.
Athugasemdir
banner
banner
banner