Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   fös 12. júlí 2024 11:54
Elvar Geir Magnússon
Líflátshótanirnar og ólætin á Hlíðarenda á borði Interpol
Stuðningsmenn Vllaznia.
Stuðningsmenn Vllaznia.
Mynd: Getty Images
Læti í stúkunni í gær.
Læti í stúkunni í gær.
Mynd: Skjáskot/Valur
Mikil ólæti sköpuðust á Hlíðarenda í gær eftir Evrópuleik Vals og Vllaznia frá Albaníu en leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.

Eins og fjallað var um á Fótbolta.net í gær kastaði stjórnarmaður Vllaznia flösku úr stúkunni í átt að dómaranum. Þá hræktu einhverjir úr stuðningsmannahópi gestanna á dómarateymið þegar það gekk af velli auk þess sem forseti og framkvæmdastjóri albanska félagsins eru sagðir hafa hótað stjórnarmönnum Vals lífláti.

Öryggisdeild UEFA í sambandi við Val
Í tilkynningu frá Styrmi Þór Bragasyni framkvæmdastjóra Vals er sagt að málið hafi verið tilkynnt til UEFA og öryggisdeild sambandsins hafi verið í sambandi við Val.

„Okkur hefur verið tjáð að málið sé nú til umfjöllunar þar og sé litið alvarlegum augum. Við bíðum svara. Þá hefur KSÍ verið upplýst um málið og boðið fram aðstoð sína auk þess sem við höfum verið í sambandi við Ríkislögreglustjóra vegna málsins," segir í yfirlýsingunni. „Knattspyrnufélagið Valur fordæmir hegðun sem þessa sem á auðvitað ekkert skylt við fótbolta."

Hótaði að skera augun úr stuðningsmanni Vals
Í útsendingu Stöðvar 2 Sport frá leik gærkvöldsins sást öryggisvörður á vegum Vals vera sleginn í andlitið af einum stuðningsmanna Vllaznia. Ónafngreindur stuðningsmaður Vals segir við Vísi að stuðningsmaður Vllaznia hafi hótað að skera úr sér augun.

Á Vísi kemur einnig fram að alþjóðalögreglan Interpol sé með málið á sínu borði, þar sem um alþjóðlegan viðburð var að ræða sem skipulagður er af UEFA.

„Allur fókus okkar Valsmanna er á seinni leikinn sem fer fram í Albaníu þann 18. júlí n.k. Þann leik ætlum við að vinna og fara áfram í næstu umferð keppninnar. Við lítum sem svo á að málið sé komið í réttan farveg og munum ekki tjá okkur frekar um málið," segir Styrmir í tilkynningunni.
Athugasemdir
banner