Heimild: Dr. Football
Klukkan 17:00 tekur ÍA á móti Breiðabliki á ELKEM-vellinum á Akranesi í fyrsta leik Bestu deildarinnar eftir landsleikjahlé. Um mikilvægan leik á sitthvorum enda deildarinnar er að ræða. ÍA er átta stigum frá öruggu sæti og Breiðablik er sjö stigum frá toppliði Vals.
Rætt var um leikinn í Dr. Football þætti dagsins.
Rætt var um leikinn í Dr. Football þætti dagsins.
„Er þetta ekki búið hjá báðum liðum í þeirri baráttu sem þau eru í ef þau vinna ekki, bæði lið verða að vinna. Skagamenn rúlluðu yfir Breiðablik á Kópavogsvelli síðast, 1-4, spurning hvort Lárus Orri hafi mennina í það að fara aftur í 3-5-2, Ómar (Björn Stefánsson) var fremstur og fór illa með Blika," sagði Albert Brynjar Ingason í þættinum.
Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks, tekur út leikbann eftir rauða spjaldið sem hann fékk gegn Víkingi fyrir landsleikjahlé. Baldvin Þór Berndsen kemur aftur til baka eftir leikbann hjá ÍA.
„Þannig Rúnar (Már Sigurjónsson) hlýtur að fara aftur upp á miðjuna fyrir (Jonas) Gemmer, Gemmer er búinn að vera mjög slakur. Ef Lárus Orri væri ennþá í stúkunni þá væri Gemmer leikmaður sem hann væri búinn að taka fyrir. Hann væri búinn að furða sig á því að þjálfari væri að spila erlendum leikmanni sem væri ekki í standi. Ég trúi ekki öðru en að hann detti úr liðinu. Viktor Jónsson þarf að fara skora, aðallega fyrir Lárus Orra. Lárus er búinn að ná markmanninum í gang, Árni er allt annar eftir að Lárus tók við, en Viktor Jóns er ekki búinn að skora ennþá," sagði Albert. Rúnar Már spilaði sem miðvörður gegn ÍBV í síðustu umferð.
Hrafnkell Freyr Ágústsson ræddi um Blikana.
„Það er eitt sem ég held að Blikar þurfi að fara finna núna, það er búið að vera svolítið rót á hafsentunum frá því að Damir kom. Dóri þarf að finna eitthvað par núna sem spilar allavega út mótið og Kiddi Jóns helst með þeim. Við sáum það í fyrra, aðalsmerki Blika þegar leið á mótið var vörnin," sagði Hrafnkell.
ÍA sótti Danann Jonas Gemmer í glugganum og hefur hann ekki heillað. Breiðablik endurheimti Damir Muminovic frá Asíu í glugganum. Hann, Viktor Örn Margeirsson og Ásgeir Helgi Orrason eru að berjast um sæti í liðinu.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Valur | 21 | 12 | 4 | 5 | 52 - 33 | +19 | 40 |
2. Víkingur R. | 21 | 11 | 6 | 4 | 40 - 27 | +13 | 39 |
3. Stjarnan | 21 | 11 | 4 | 6 | 41 - 34 | +7 | 37 |
4. Breiðablik | 20 | 9 | 6 | 5 | 36 - 31 | +5 | 33 |
5. FH | 21 | 8 | 5 | 8 | 39 - 33 | +6 | 29 |
6. Fram | 21 | 8 | 4 | 9 | 30 - 29 | +1 | 28 |
7. ÍBV | 21 | 8 | 4 | 9 | 23 - 27 | -4 | 28 |
8. Vestri | 21 | 8 | 3 | 10 | 22 - 24 | -2 | 27 |
9. KA | 21 | 7 | 5 | 9 | 25 - 38 | -13 | 26 |
10. KR | 21 | 6 | 6 | 9 | 42 - 44 | -2 | 24 |
11. Afturelding | 21 | 5 | 6 | 10 | 28 - 36 | -8 | 21 |
12. ÍA | 20 | 5 | 1 | 14 | 20 - 42 | -22 | 16 |
Athugasemdir