Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
   þri 13. október 2020 20:40
Aksentije Milisic
Þjóðadeildin: Sex marka jafntefli í Köln - Úkraína lagði Spán
Neuer sækir boltann úr netinu.
Neuer sækir boltann úr netinu.
Mynd: Getty Images
Ramos í baráttunni í kvöld.
Ramos í baráttunni í kvöld.
Mynd: Getty Images
Fimm leikjum var að ljúka í Þjóðadeildinni rétt í þessu.

Í A-riðli fóru fram tveir leikir. Í riðli 4 mættust Þýskaland og Sviss í Köln á meðan Úkraína fékk Spán í heimsókn.

Það var líf og fjör í leik Þýskalands og Sviss og mörkunum rigndi inn. Gestirnir komust nokkuð óvænt í 2-0 forystu snemma leiks. Mario Gavranovic kom Sviss yfir á 5. mínútu og Remo Freuler tvöfaldaði forystuna þegar hann vippaði boltanum snyrtilega yfir Manuel Neuer eftir góða skyndisókn.

Á 28. mínútu minnkaði Timo Werner muninn fyrir heimamenn og staðan 1-2 í háfleik. Í síðari hálfleik komu þrjú mörk á fimm mínútna kafla. Kai Havertz jafnaði metin fyrir Þýskaland á 57. mínútu en tveimur mínútum síðar skoraði Gavranovic sitt annað mark og kom Sviss aftur yfir.

Þýskaland gafst ekki upp og jafnaði Serge Gnabri leikinn á 60. mínútu. Hann fékk þá sendingu frá Werner og kláraði færið frábærlega með hælnum. Meira var ekki skorað og því jafntefli niðurstaðan í þessum fjöruga leik. Fabian Schar fékk rautt spjald í uppbótartíma hjá Sviss.

Það var heldur rólegra yfir leik Úkraínu og Spán á sama tíma. Viktor Tsigankov kom heimamönnum yfir þegar um korter var eftir af leiknum. Markið kom eftir frábæra sókn hjá heimamönnum. Þetta reyndist eina mark leiksins og öflugur sigur Úkraínu staðreynd. Spánn er í efsta sætinu með sjö stig en Þýskaland og Úkraína eru bæði með 6. Sviss er í neðsta sæti með tvö stig.

Í riðli 1 í C-deild mættust Svartfjallaland og Lúxemborg. Igor Ivanovic kom Svartfjallalandi yfir á 34. mínútu en Edvin Muratovic jafnaði rétt fyrir hálfleik. Það voru svo gestirnir frá Lúxemborg sem gerðu eina mark síðari hálfleiksins og þar var að verki Danel Sinani rétt fyrir leikslok. Liðin eru í tveimur efstu sætum riðilsins með níu stig.

Í riðli 1 í D-deild unnu Færeyjar sigur á Andorra 2-0. Færeyjar eru í efsta sæti riðilsins með 10 stig.

Í riðli 2 í mættust Lichenstein og San Marínó. Lichenstein, undir stjórn Helga Kolviðssonar, tókst ekki að skora í kvöld, ekki frekar en gestunum. Niðurstaðan því 0-0 og var þetta fyrsta stig San Marínó í riðlinum. Lichenstein er með fjögur stig.

Germany 3 - 3 Switzerland
0-1 Mario Gavranovic ('5 )
0-2 Remo Freuler ('26 )
1-2 Timo Werner ('28 )
2-2 Kai Havertz ('55 )
2-3 Mario Gavranovic ('57 )
3-3 Serge Gnabry ('60 )
Rautt spjald: Fabian Schar, Switzerland ('90)

Ukraine 1 - 0 Spain
1-0 Viktor Tsygankov ('76 )

Montenegro 1 - 2 Luxembourg
1-0 Igor Ivanovic ('34 )
1-1 Edvin Muratovic ('42 )
1-2 Danel Sinani ('86 )

Faroe Islandes 2 - 0 Andorra
1-0 Klaemint Olsen ('19 )
2-0 Klaemint Olsen ('33 )

Liechtenstein 0 - 0 San Marino
Athugasemdir
banner
banner
banner