Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fös 13. nóvember 2020 14:18
Elvar Geir Magnússon
Dómarinn gerði Messi bálreiðan í jafntefli gegn Paragvæ
Messi fylgist með Claus í VAR skjánum.
Messi fylgist með Claus í VAR skjánum.
Mynd: Getty Images
Undankeppni HM í Suður-Ameríku er talin ein erfiðasta undankeppni heimsfótboltans og Argentínumenn voru hrikalega svekktir að fá ekki öll stigin þrjú úr heimaleik gegn Paragvæ.

Lokatölur urðu 1-1 þar sem Paragvæ komst yfir úr vítaspyrnu frá Angel Romero en Nicolas Gonzalez, leikmaður Stuttgart, jafnaði fyrir Argentínu fyrir hlé.

Lionel Messi hefur aðeins skorað í átta af síðustu 24 landsleikjum fyrir Argentínu en hann var áberandi í þessum leik gegn Paragvæ og átti meðal annars sláarskot úr aukaspyrnu.

Hann náði að skora eftir frábært spil og fagnaði innilega þegar hann hélt að hann væri að koma Argentínu yfir 2-1. En brasilískur dómari leiksins, Raphael Claus, dæmdi markið af eftir að hafa farið í VAR skjáinn.

Claus fann brot sem var framið úti á miðjum velli 27 sekúndum áður en boltinn endaði í netinu. Messi var verulega pirraður út í dómarann í leiknum en snemma í leiknum vildi Argentína fá vítaspyrnu en Claus dæmdi ekkert.

„Þú klúðraðir þessu fyrir okkur tvisvar," kallaði Messi á dómarann eftir lokaflautið, bálreiður. „Þetta er ótrúlegt, algjörlega til skammar!"

Argentína er á toppi undankeppninnar en Brasilía getur hirt toppsætið með því að vinna Venesúela. Messi og félagar mætar Perú á þriðjudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner