Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 13. nóvember 2022 09:15
Magnús Már Einarsson
7 dagar í HM - HM í Bandaríkjunum 1994
Skotinn til bana eftir sjálfsmark
Brasilíumenn fögnuðu sigri.
Brasilíumenn fögnuðu sigri.
Mynd: Getty Images
Escobar var myrtur eftir að hafa skorað sjálfsmark.
Escobar var myrtur eftir að hafa skorað sjálfsmark.
Mynd: Getty Images
Oleg Salenko skoraði fimm gegn Kamerún.
Oleg Salenko skoraði fimm gegn Kamerún.
Mynd: Getty Images
Maradona var sendur heim eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.
Maradona var sendur heim eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.
Mynd: Getty Images
Hristo Stoichkov bar af í liði Búlgaríu.
Hristo Stoichkov bar af í liði Búlgaríu.
Mynd: Getty Images
Romario fór á kostum með Brössum.
Romario fór á kostum með Brössum.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.



HM í Bandaríkjunum 1994
Bandaríkjamenn héldu HM í fyrsta skipti árið 1994 og þrátt fyrir að fótboltinn sé ekki númer eitt þar í landi þá hefur mætingin á leiki aldrei verið betri í sögu keppninnar. 3,6 milljónir áhorfenda mættu samtals á leikina og meðaláhorfendafjöldi var 69 þúsund á hverjum leik. Níu leikvangar voru notaðir á mótinu en þar af voru átta leikir spilaðir í Rósarskálinni í Pasadena í Kaliforníu.

Myrtur eftir sjálfsmark
Andrés Escobar, varnarmaður Kolumbíu, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í tapi gegn Bandaríkjamönnum í riðlakeppninni. Enginn sá fyrir afleiðingar þess því hann var skotinn til bana í heimalandi sínu tíu dögum síðar vegna sjálfsmarksins. Talið er að eiturlyfjabarónar í Kolumbíu hafi tapað háum fjárhæðum í veðmálum vegna sjálfsmarksins og ákveðið að drepa Escobar. Aðrir vilja meina að morðið tengist fótbolta ekki en Escobar er ennþá minnst í heimalandi sínu .

Francisco Maturana þjálfari Kolumbíu fékk einnig morðhótanir vegna liðsvals en veðmálahópar og eiturlyfjahringar höfðu áhrif á Kolumbíumenn á mótinu. Liðið náði heldur ekki langt og endaði í neðsta sæti í A-riðli, þrátt fyrir að vinna Svisslendinga í lokaumferðinni.

Fimm mörk og elsti markaskorarinn
Eftir að hafa hafa lagt skóna á hilluna árið 1989 varð Roger Milla við ósk landsliðsþjálfara Kamerún um að halda áfram og spila með liðinu á Ítalíu árið 1990. Hann bætti svo um betur með því að vera einnig í liði Kamerúna á HM 1994. Þar skoraði Milla í 6-1 tapi Kamerún gegn Rússum. Milla var þá 42 ára gamall og hann er enn þann dag í dag elsti markaskorarinn á HM frá upphafi.

Í sama leik skoraði Oleg Salenko fimm mörk fyrir Rússa en enginn annar leikmaður hefur náð þeim áfanga áður á HM. Salenko skoraði þrennu í fyrri hálfleik og bætti við tveimur mörkum í þeim síðari.

Maradona sendur heim
Eftir að hafa leitt Argentínumenn til sigurs á HM 1986 og í úrslit árið 1990 þá var HM í Bandaríkjunum ekki sama frægðarförin hjá Diego Maradona. Mardona var rekinn heim eftir að hafa fallið á lyfjaprófi en efedrín fannst í blóði hans. Maradona hafði sínar skýringar á málinu.

Fyrst sagðist hann hafa fengið orkudrykkinn Rip Fuel hjá einkaþjálfara sínum og ekki áttað sig á að efedrín væri í honum. Efedrín hjálpar mönnum að missa kíló og í öðru viðtali sagðist Maradona hafa fengið sérstakt leyfi hjá FIFA fyrir mótið til að nota efedrín. Maradona skoraði í 4-0 sigri Argentínu gegn Grikkjum áður en hann var sendur heim en í kjölfarið lauk 17 ára landsliðsferli hans.

Langbesti árangur Búlgaríumanna
Búlgaríumenn komu skemmtilega á óvart á mótinu með Hristo Stoichkov í fararbroddi. Þeir höfðu aldrei unnið leik á HM þrátt fyrir að hafa tekið fimm sinnum þátt en í Bandaríkjunum fóru þeir á kostum. Í 8-liða úrslitunum unnu Búlgaríumenn ríkjandi heimsmeistara frá Þýskalandi 2-1 með mörkum frá Stoichkov og Yordan Letchkov. För Búlgaríumanna lauk í undanúrslitum þar sem liðið tapaði gegn Ítalíu. Þetta er þrátt fyrir það langbesti árangur Búlgaríu frá upphafi og liðið kom skemmtilega á óvart á mótinu.

Svíar náðu bronsinu
Búlgaríumenn og Svíar komust óvænt í undanúrslit mótsins ásamt Brasilíu og Ítalíu. Eftir að hafa ekki skorað í riðlakeppninni þá komst Roberto Baggio í gang og hann skoraði bæði mörk Ítalíu í 2-1 sigri á Búlgaríu í undanúrslitunum. Í hinum undanúrslitaleiknum sigraði Brasilía síðan Svíþjóð 1-0 þar sem Romario skoraði eina markið en þessi lið höfðu einnig mæst í riðlakeppninni þar sem niðurstaðan varð 1-1 jafntefli.

Svíar spiluðu skemmtilegan bolta á mótinu með Thomas Brolin í broddi fylkingar en hann var valinn í úrvalslið mótsins. Þeir hættu ekki eftir tapið gegn Brasilíu heldur kláruðu mótið með stæl með því að vinna Búlgaríu 4-0 í leik um bronsið.

Úrslitaleikur: Brasilía 0 - 0 Ítalía (3-2 eftir vító)
Spennan var mikil í úrslitaleiknum en bæði lið voru varkár og gáfu afar fá færi á sér. Hvorugt liðið náði að skora í venjulegum leiktíma og í framlengingu var það sama uppi á teningnum. Í fyrsta skipti í sögu úrslitaleikja HM réðust úrslitin því í vítaspyrnukeppni.

Eftir fjórar umferðir í vítaspyrnukeppninni voru Brasilíumenn 3-2 yfir en þá var komið að Roberto Baggio að stíga á punktinn. Baggio spilaði leikinn þrátt fyrir meiðsli en hann varð að skora til að halda Ítalíu á lífi í vítaspyrnukeppninni. Baggio þrumaði hins vegar boltanum yfir og um leið varð ljóst að Brasilíumenn væru heimsmeistarar í fjórða skipti.

Um leið komust Brasilíumenn á undan Ítölum sem höfðu fyrir þetta unnið HM þrívegis. Eftir leikinn fékk Dunga fyrirliði Brasilíu síðan HM styttuna en brasilíska liðið ákvað að tileinka Ayrton Senna sigurinn. Senna var heimsmeistari í Formula 1 en hann lést tveimur og hálfum mánuðum fyrir HM í Brasilíu.

Leikmaðurinn: Romario
Romario átti stóran þátt í sigri Brasilíumanna á mótinu með því að skora fimm mörk. Romario var á þessum tíma 28 ára gamall og á hátindi ferilsins. Hann lagði skóna síðan ekki á hilluna fyrr en árið 2009 eftir að hafa skorað yfir 1000 mörk á ferli sínum.

Markahrókarnir: Salenko og Stoichkov
Oleg Salenko og Hristo Stoichkov skoruðu báðir sex mörk í Bandaríkjunum og deildu því markakóngstitlinum. Salenko skoraði fimm mörk gegn Kamerún og það fleytti honum langt í baráttunni um gullskóinn. Stoichkov var hins vegar potturinn og pannann í sóknarleik Búlgara sem komu á óvart og enduðu í 4. sæti.

Leikvangurinn: Rósarskálin í Kaliforníu
Átta leikir á HM 1994 fóru fram í Rósarskálinni í Kaliforníu en um 93 þúsund áhorfendur mættu á hvern leik þar. Yfir 94 þúsund manns sáu síðan úrslitaleikinn sjálfan. Auk úrslitaleiksins fór leikurinn um 3. sætið einnig fram á leikvanginum sem og undanúrslitaleikur Svíþjóðar og Brasilíu.

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM í Mexíkó 1970
HM í Vestur-Þýskalandi 1974
HM í Argentínu 1978
HM á Spáni 1982
HM í Mexíkó 1986
HM á Ítalíu 1990

Markaregn frá HM 1994:

Athugasemdir
banner
banner