Hönd Guðs
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
HM í Mexíkó 1986
Þunnt loft og hátt hitastig settu svip sinn á HM 1986. Upphaflega átti keppnin að vera haldin í Kólumbíu en þar sem ástandið í landinu var ótryggt og fátækin mikil varð Mexíkó fyrsta landið til að halda keppnina tvisvar. Nokkrum mánuðum fyrir mótið létust 9.500 manns í Mexíkó efir geysilega jarðskjálfta en þátttökuþjóðirnar á HM gáfu hluta af peningunum sem þær fengu í aðgangseyri til styrktar fórnarlamba jarðskjálftana.
Maradona blár og marinn
Í Mexíkó var leikið í sex fjögurra liða riðlum. Tvær efstu þjóðir hvers riðils ásamt fjórum þjóðum sem náðu besta árangrinum í þriðja sæti fóru áfram í 16-liða úrslit. Mikil öryggisgæsla var á mótinu og hermann og skriðdrekar fyrir framan Azteka-leikvanginn þegar opnunarhátíðin fór fram.
Diego Maradona, dýrasti fótboltamaður heims, var mættur til að sýna að hann væri bestur. Hann fékk að finna fyrir því gegn Suður-Kóreu í riðlakeppninni þar sem hann var sparkaður niður hvað eftir annað. Maradona var allt annað en sáttur við móttökurnar og hvernig dómarinn höndlaði síbrotamennina. Maradona lék við hvurn sinn fingur þó hann hafi ekki skorað í 3-1 sigri Argentínu. Hann var allur blár og marinn eftir leikinn.
Danir skáluðu
Vestur-Þýskalands lék í „dauðariðli" mótsins með Úrúgvæ, Danmörku og Skotlandi en þar var hart barist í öllum leikjum. Skotar mættu til Mexíkó aðeins þremur dögum fyrsta leik og var þá grínast með að þeir væru að spara.
Danir voru að taka þátt í HM í fyrsta sinn. Þeir léku í borginni Queretaro sem er 1.842 metra yfir sjávarmáli en hæsti hóll Danmerkur er 172 metrar. Bjórdrykkja leikmanna Danmerkur vakti athygli en leikmenn liðsins máttu fá sér þrjá bjóra eftir leiki. Danir unnu alla þrjá leiki sína í riðlinum, þar á meðal 6-1 sigur gegn Úrúgvæ.
V-Þýskaland hafnaði í öðru sæti en liðið tapaði 2-0 fyrir Dönum þar sem það nýtti ekki fjölmörg færi sem það fékk.
16-liða úrslit
Þjálfari Belgíu setti sína menn í kynlífsbann meðan á mótinu stóð. Liðið komst í 16-liða úrslit þar sem það vann óvæntan sigur á Sovétmönnum 4-3 í leik sem líkja má við fótboltasýningu. Brasilía bauð einnig upp á sýningu þegar liðið vann Pólland 4-0.
Maradona lék aðallhlutverkið þegar Argentína vann Úrúgvæ 1-0, Evrópumeistarar Frakka unnu Heimsmeistarana frá Ítalíu 2-0, Gary Lineker skoraði tvívegis í 2-0 sigri Englands gegn Paragvæ og Danir voru skotnir niður á jörðina þegar Spánverjar unnu þá 5-1. Marokkó stóð sig vel á mótinu en lá í valnum gegn V-Þýskalandi 1-0.
Hönd Guðs
Þrír af fjórum leikjum 8-liða úrslitanna fóru í vítaspyrnukeppni; Frakkland sló Brasilíu út í leik tveggja frábærra fótboltaliða, Harald Schumacer markvörður var hetja V-Þýskalands gegn heimamönnum í Mexókó og Belgía hélt áfram að koma á óvart og sló Spán út.
Diego Maradona sýndi snilli sína þegar Argentína vann England 3-1. Hann skoraði tvö sögulegustu mörk HM. Það fyrra skoraði hann með hendi án þess að dómarinn tók eftir því. Eftir leikinn sagði Maradona að það hafi verið hönd guðs sem skoraði markið. Í því seinna sundurtætti hann vörn Englands einn síns liðs. Oft nefnt eitt fallegasta mark sögunnar.
Þýska stálið braut Frakka
Frakkar sem höfðu heillað áhorfendur í keppninni þurftu að játa sig sigraða gegn skipulögðu liði V-Þjóðverja í undanúrslitum. Leikaðferð þýska liðsins gekk út á að brjóta niður miðjuspil Frakka. Það gekk eins og í sögu og 2-0 sigur staðreynd.
Maradona-sýningin hélt áfram þegar Argentína vann 2-0 sigur á Belgíu í hinum undanúrslitaleiknum. Argentínska liðið sýndi einnig góða liðsheild í leiknum en Maradona sá um að skora bæði mörkin. Þjálfari Belga sagði eftir leik að ef hann væri með maradona í sínu liði myndi það vinna keppnina.
Úrslitaleikur: Argentína 3 - 2 V-Þýskaland
1-0 José Luis Brown ('23)
2-0 Jorge Valdano ('55)
2-1 Karl-Heinz Rummenigge ('74)
2-2 Rudi Völler ('80)
3-2 Jorge Burruchaga ('83)
Lothar Matthaus fékk það hlutverk að gæta Diego Maradona í úrslitaleiknum. Maradona var í strangri gæslu og fór það í taugarnar á honum. Fékk hann gult spjald fyrir tuð við dómarann eftir sautján mínútur. En Argentína komst yfir þegar Schumacher í marki V-Þýskalands misreiknaði knöttinn. Á 55. mínútu sofnaði þýska vörnin á verðinum en eftir það náði liðið betri tökum.
Eftir tvær hornspyrnur náði V-Þýskaland að jafna en þegar sjö mínútur voru til leiksloka kom sigurmarkið, Jorge Burruchaga slapp einn í gegn og kláraði. Þjóðverjar höfðu lagt of mikla áherslu á sóknina í lokin og gleymt sér í varnarleiknum.
Carlos Bilardo, þjálfari Argentínu, var harðlega gagnrýndur fyrir mótið en eftir það var hann orðin þjóðhetja. Þegar hann kom heim til Buenos Aires var risastór borði við aðalgötuna þar sem stóð: „Fyrirgefðu Bilardo - Þú ert sigurvegari".
Leikmaðurinn: Diego Maradona
Maradona var slæmur í hnénu fyrir mót þar sem æstur áhorfandi hafði sparkað í hann eftir leik gegn Venesúela í undankeppninni. En hann var ákveðinn að sýna það í Mexíkó hvað í honum býr og hélt hann sýningu frá upphafi til enda sem fyrirliði Argentínu. Af mörgum talinn besti fótboltamaður sögunnar. Einn umdeildasti og litríkasti karakter sem komið hefur fram á sviðið í boltanum.
Markahrókurinn: Gary Lineker
Eini Englendingurinn sem hefur hlotnast sá heiður að vinna gullskóinn á HM, skoraði sex mörk. Strax eftir mótið gekk hann í raðir Barcelona frá Everton. Hann er í dag að starfa sem dagskrárgerðarmaður íþróttaþátta hjá BBC.
Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM í Mexíkó 1970
HM í Vestur-Þýskalandi 1974
HM í Argentínu 1978
HM á Spáni 1982
Mörkin tvö sem Maradona skoraði gegn Englandi:
Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir