Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   mið 13. desember 2023 19:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Lublin, Póllandi
Blikar ætla að sækja til sigurs - „Okkur finnst við skulda okkur sjálfum að sækja stig"
Höskuldur Gunnlaugsson.
Höskuldur Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Árnason.
Halldór Árnason.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Þetta snýst fyrst og fremst um þær kröfur sem við setjum á sjálfa okkur
Þetta snýst fyrst og fremst um þær kröfur sem við setjum á sjálfa okkur
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
„Markmiðið er klárlega að ná í úrslit á morgun. Okkur finnst við skulda okkur sjálfum fyrst og fremst það að sækja stig og ætlum svo sannarlega að keyra á það á morgun," sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, við Fótbolta.net á fréttamannafundi fyrir leikinn gegn Zorya Luhansk í Sambandsdeildinni á morgun.

Höskuldur og þjálfarinn Halldór Árnason sátu fyrir svörum fyrir æfingu liðsins í Lublin í dag. Leikurinn á morgun hefst klukkan 20:00 að íslenskum tíma.

Smáatriðin sem skilja á milli
Þjálfarinn var spurður hvað hefði vantað upp á til að ná í stig eða jafntefli gegn Maccabi í síðasta Evrópuleik.

„Það vantaði ekki mikið upp á, við vorum mjög svekktir með þau úrslit. Þetta var einn af þessum dögum þar sem þetta fellur á algjörum smáatriðum. Við gleymum okkur einu sinni í 'transition' og þeirra hættulegasti maður fékk boltann við D-bogann í skotfæri. Það var bara munurinn. Við fengum ótal sénsa til að komast yfir í leiknum, en það er oft þannig á móti svona sterkum liðum að smáatriðin skilja á milli,"

Höfðu yfirburði en úrslitin fylgdu ekki
Voru menn súrir eftir leik?

„Auðvitað, okkur fannst við hafa spilað heilt yfir mjög fínan leik og gert nóg til að fá úrslitin með því. Vorum kannski ekkert mjög súrir, en auðvitað svekkjandi og menn pirraðir. Við vorum sáttir við að hafa náð að hafa yfirburði gegn þetta sterku liði," sagði Höskuldur.

Þurfa að vera skynsamir en munu sækja til sigurs
Hvernig leik má búast við á morgun? Verða Blikar ennþá sókndjarfari en í síðasta leik?

„Við þurfum auðvitað að vera skynsamir líka í okkar nálgun og höfum gert það í okkar leikjum. Ég held við höfum náð ágætri blöndu í síðasta leik; pressuðum Maccabi hátt á köflum og fengum okkar hættulegustu sóknir og færi þannig. Þess á milli fórum við aðeins neðar og vorum líka hættulegir þegar við ógnuðum aftur fyrir þá. Ég geri ráð fyrir því að við reynum að koma okkur inn í leikinn, komum inn af miklum krafti, áttum okkur á vellinum, aðstæðum og mótherja. Við munum sækja til sigurs, það er engin spurning," sagði Dóri.

Pressan kemur fyrst og fremst innan frá
Fyrirliðinn var spurður hvort leikmenn fyndu fyrir pressu á að ná í úrslit á morgun.

„Bara innan frá fyrst og fremst. Maður heyrir alveg af einhverri og finnur aðeins fyrir utanaðkomandi pressu, en þetta snýst fyrst og fremst um þær kröfur sem við setjum á sjálfa okkur. Okkur finnst við alveg hafa gert nóg í flestum af þessum leikjum til að fá meira út úr þeim en raunin er. Það er ekkert sem er að plaga okkur þannig, fókusinn er áfram á að mæta til leiks á okkar forsendum og bæta okkur enn frekar í nokkrum atriðum leiksins. Ef við gerum það þá held ég að við getum sannarlega náð í úrslit á morgun," sagði Höskuldur.
Athugasemdir
banner
banner