Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   þri 14. maí 2024 20:58
Ívan Guðjón Baldursson
England: Man City með níu fingur á titlinum
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: EPA
Tottenham 0 - 2 Man City
0-1 Erling Haaland ('51)
0-2 Erling Haaland ('91, víti)

Englandsmeistarar Manchester City eru aðeins einum sigri frá því að tryggja sér enn einn Englandsmeistaratitilinn undir stjórn Pep Guardiola eftir sigur á útivelli gegn Tottenham.

Man City hefur unnið deildina fimm sinnum á síðustu sex árum og þurfa lærisveinar Guardiola núna einungis að sigra heimaleik gegn West Ham í lokaumferðinni til að tryggja sér annan Englandsmeistaratitil.

Staðan var markalaus í leikhlé á Tottenham Hotspur leikvanginum í kvöld en fyrri hálfleikurinn var afar jafn.

Man City tók forystuna í upphafi síðari hálfleiks eftir frábæra sókn sem endaði með marki frá Erling Braut Haaland af afar stuttu færi eftir góðan undirbúning frá Kevin De Bruyne og Bernardo Silva.

Tottenham var sterkari aðilinn eftir markið og komst Dejan Kulusevski næst því að jafna leikinn, en Stefan Ortega varði meistaralega frá honum eftir að hafa komið inn af bekknum fyrir Éderson sem varð fyrir höfuðmeiðslum.

Á lokamínútum leiksins slapp Son Heung-min einn í gegn en hann klúðraði algjöru dauðafæri á móti Ortega, sem varði glæsilega.

Nær komst Tottenham ekki en á 90. mínútu slapp Jeremy Doku í gegn í skyndisókn og fiskaði vítaspyrnu, sem Haaland skoraði örugglega úr.

Lokatölur 0-2 þrátt fyrir flotta frammistöðu hjá Tottenham. City er ótrúlega nálægt því að vera fyrsta félag sögunnar til að tryggja sér fjóra Englandsmeistaratitla í röð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner