„Þetta er mjög svekkjandi," sagði Viktor Karl Einarsson leikmaður Breiðabliks eftir 2-1 tap gegn Zrinjski Mostar í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 2 Zrinjski Mostar
„Ég held að við höfum byrjað of passíft, og gáfum mjög auðvelt mark. Það gerði það að verkum að við þurftum að fara grafa djúpt, og vorum búnir að koma okkur í smá holu. Ég held við höfum svarað ágætlega í seinni hálfleik, en það er náttúrulega mjög erfitt að fá á sig annað mark í byrjun seinni, þegar við vorum að fara keyra þetta í gang. Svo fannst mér við koma þessu í gang og komum drullu ferskir inn í seinni en það var eiginlega bara aðeins of seint," sagði Viktor.
Breiðablik mætir að öllum líkindum Virtus frá San Maríno í næstu umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar. Þegar þetta er skrifað eru þeir 5-3 yfir í einvígi sínu gegn Milsami Orhei frá Moldavíu.
„Ég bara veit ekkert um þessi lið. Við tökum því sem við fáum og förum bara með kassann út í það. Þetta einvígi er búið og við förum bara að horfa næst í leikina um helgina, svo í næsta Evrópu einvígi eða ekki," sagði Viktor.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.