

Þegar þú ert svo kominn þangað þá viltu fá þessa tilfinningu aftur. Þú ert alltaf að vinna að því að komast á þennan stað.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson ræddi við Fótbolta.net á Andaz hótelinu í Vínarborg í dag. Framundan eru leikir gegn Slóvakíu og Portúgal í undankeppni EM og verður fyrri leikurinn gegn Slóvakíu í Bratislava á fimmtudag.
„Við horfum á þetta verkefni eins og hvert annað. Við ætlum okkur að bæta okkar leik og það er kjörið tækifæri á að byrja á því á móti Slóvakíu. Við eigum harma að hefna gegn þeim, áttum góðan leik gegn þeim heima og vorum óheppnir að ná ekki meira úr þeim leik - eins og kannski í fleiri leikjum í þessum riðli. Þetta snýst um að ná stöðugleika og klára færi eins og við fengum á móti þeim, ásamt því að verja markið okkar. Það er auðvelt að segja það, en við þurfum að finna þetta í okkar leik og byggja ofan á það," sagði Aron.
Aron segir að svekkelsið eftir fyrri leikinn gegn Slóvakíu, þar sem íslenska liðið óð í færum snemma leiks, verði nýtt sem bensín. „Það er margt úr þeim leik sem við getum tekið og nýtt í þessum leik. Heima- og útileikir eru kannski lagðir upp aðeins öðruvísi, en við vitum þeirra veikleika og vitum þeirrra styrkleika líka. Þeir eru öflugir í sínum aðgerðum. Við þurfum að vera þéttari en við vorum í fyrri leiknum."
Langlíklegast er að Ísland sé á leið í umspil um sæti á EM í mars. Aron var spurður hvort liðið ætti ekki að vera á ansi góðum stað ef það heldur áfram á því róli sem það hefur verið á.
„Það er planið og þjálfarinn hefur imprað á því líka, að þó að það sé ennþá séns að komast áfram í gegnum riðilinn, þá er hann líka að leita að liðinu sem verður klárt í verkefnið í mars. Það er gífurlega mikill séns þar að komast á EM í gegnum það. Við ætlum að nýta okkur það ef við náum ekki sæti í gegnum riðilinn núna."
„Mér finnst blandan í hópnum mjög góð, góð blanda af ungum leikmönnum og eldri og reynslumeiri. Ég er virkilega ánægður með hvernig þetta er að þróast. Menn eru að grípa tækifæri og eru að spila vel hjá sínu félagsliði. Það er alltaf góðs viti þegar þú kemur inn í verkefni að vera í góðu formi hjá þínu félagsliði; gefur þér auka sjálfstraust og það smitar út frá sér inn í hópinn. Þetta vonandi nýtist okkur," sagði Aron.
„Þú ert alltaf að vinna að því að komast á þennan stað"
Landsliðsþjálfarinn Age Hareide langar mikið að koma liðinu á EM næsta sumar og það er sama hungur í hópnum.
„Það segir sig svolítið sjálft. Áður en við vorum búnir að ná þangað þá var það alltaf draumurinn. Þegar þú ert svo kominn þangað þá viltu fá þessa tilfinningu aftur. Þú ert alltaf að vinna að því að komast á þennan stað. Það yrði virkilega sterk reynsla fyrir strákana sem eru að koma upp að fara á Evrópumót, fá fílínginn."
Aron ræðir í viðtalinu, sem má nálgast í spilaranum efst, um stöðu sína og framtíð í Katar, Gylfa Þór Sigurðsson og uppeldisfélagið Þór.
Stöðutaflan

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir