Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   fim 14. desember 2023 16:10
Elvar Geir Magnússon
Svona verður nýtt fyrirkomulag Meistaradeildarinnar
Mynd: Getty Images
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Nýtt fyrirkomulag Meistaradeildar Evrópu, 'Svissneska módelið' eins og það er kallað, verður tekið í notkun á næsta tímabili. Keppnin mun gjörbreytast, þátttökuliðum er fjölgað úr 32 í 36 og riðlakeppnin lögð af.

Það verður því deildarkeppni Meistaradeildarinnar en ekki riðlakeppni. Liðin 36 raða sér á eina stóra stöðutöflu þar sem hvert lið mun leika átta leiki gegn átta mismunandi andstæðingum úr mismunandi styrkleikaflokkum. Þegar dregið verður um leikina verður dregið úr fjórum styrkleikaflokkum, hvert lið mætir tveimur liðum úr hverjum flokki.

Efstu átta liðin í þessari nýju deild tryggja sér beint sæti í útsláttarkeppninni en liðin í sætum 9-24 fara í umspil þar sem leikið verður heima og að heiman.

Þegar deildarkeppninni er lokið er farið í 16-liða úrslitin og þá tekur við hefðbundið fyrirkomulag.

Af hverju er verið að breyta?
Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi eru fleiri leikir og fleiri leikir þýða meiri tekjur. Í deildarfyrirkomulaginu verða 144 leikir og svo 16 leikir til viðbótar í umspilinu. Heildarfjöldi leikja hækkar því um 64 leiki.

Aukið leikjaálag er auðvitað umdeilt hjá deildunum, þjálfurum og leikmönnum en peningarnir ráða. Liðum í Meistaradeildinni fjölgar þá um fjögur; fleiri stórlið taka þátt og fleiri stórir aðdáendahópar verða að horfa.

Hvaða lið bætast við?
Eins og áður segir verður þátttökuliðum fjölgað úr 32 í 36. Sú deildarkeppni sem er í fimmta sæti á styrkleikalista UEFA (sem er núna franska deildin) mun fá fjögur lið beint inn í deildarkeppnina í stað þriggja.

Aukasæti kemur inn í gegnum meistaraleiðina í undankeppninni þar sem meistarar úr minni deildum etja kappi.

Hin tvö sætin fara til þeirra fótboltasambanda sem hafa fengið flest frammistöðustig í Evrópukeppnum á tímabilinu á undan. Þær tvær deildir fá því aukasæti sem það lið hlýtur sem er efst í deildinni en fékk ekki beinan þátttökurétt í Meistaradeildinni. Til dæmis þá yrði það fimmta sætið í ensku úrvalsdeildinni ef England hlaut flest frammistöðustig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner