Guardiola áfram hjá Man City - Man Utd vill fá Goretzka - Davies til Real Madrid?
   fim 15. maí 2014 21:53
Magnús Már Einarsson
Hermann Hreiðarsson í Fylki (Staðfest)
Gerir þriggja ára samning
Hermann Hreiðarsson og Ásgeir Ásgeirsson eftir undirskriftina í kvöld.
Hermann Hreiðarsson og Ásgeir Ásgeirsson eftir undirskriftina í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Hermann Hreiðarsson hefur ákveðið að taka fram takkaskóna og leika með Fylki í Pepsi-deildinni.

Hermann skrifaði undir þriggja ára samning við Fylkismenn í kvöld en þetta staðfesti Ólafur Geir Magnússon í stjórn knattspyrnudeildar Fylkis við Fótbolta.net í kvöld.

Hermann verður fertugur í júlí næstkomandi en hann ætlar að taka slaginn með Fylkismönnum næstu árin.

,,Þetta er mikill fengur fyrir okkur. Hann er góður karakter og með góðan haus í þetta. Það eru margir ungir strákar sem éta úr lófanum úr svona kalli," sagði Óli Geir við Fótbolta.net.

,,Hann er síungur drengurinn. Ég sá hann beran að ofan áðan og ég hélt að ég væri að horfa á Chuck Norris þegar hann var 22 ára. Hann er í hörkuformi og ætlar að fara að æfa og sjá hvort að hann geti orðið styrkur fyrir okkur."

Hermann lék á sínum tíma yfir 400 leiki í Englandi með Brentford, Wimbledon, Ipswich, Charlton, Portsmouth og Coventry. Þá hefur Hermann skoraði fimm mörk í 89 landsleikjum með íslenska landsliðinu á ferli sínum.

Í fyrra var Hermann spilandi þjálfari hjá ÍBV en þá kom hann við sögu í fimm leikjum í Pepsi-deildinni.

Næsti leikur Fylkismanna í Pepsi-deildinni er gegn Víkingi R. á gervigrasvellinum í Laugardal á mánudag.
Athugasemdir
banner
banner