Þýski þjálfarinn Joachim Löw hefur mikinn áhuga á því að þjálfa landslið á HM sem fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári, en segist ekki hafa fengið tilboð til þessa.
Löw hefur ekkert þjálfað síðan 2021 er hann hætti með þýska landsliðið.
Hann stýrði Þjóðverjum í fimmtán ár og gerði liðið meðal annars að heimsmeistara á HM í Brasilíu árið 2014 ásamt því að vinna Álfukeppnina þremur árum síðar.
Þjóðverjinn hefur sankað að sér fjölda viðurkenninga síðasta áratuginn eða svo, en þrátt fyrir frábæran árangur hefur honum ekki enn boðist landsliðsþjálfarastarf fyrir HM.
„Ég hef ekki fengið nein föst tilboð á síðustu tveimur eða þremur mánuðum,“ sagði Löw við Ran.
„Ég yrði ánægður með að fá samkeppnishæft lið, en það hefur ekkert gerst til þessa þannig ég þarf að bíða aðeins lengur,“ sagði hann enn fremur.
Löw er ekkert á þeim buxunum að hætta í þjálfun og segist vera meira en tilbúinn til þess að snúa aftur á hliðarlínuna, hvort sem það verður landslið eða félagslið.
Athugasemdir