Arsenal á góða möguleika á að fá Rodrygo - Atletico leggur allt kapp á að fá Romero - West Ham hafnaði tilboði í Kudus
   mán 15. ágúst 2022 20:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sævar sá eini sem spilaði - AGF hafði betur í Íslendingaslag
Sævar Atli Magnússon.
Sævar Atli Magnússon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru nokkrir Íslendingar í eldlínunni erlendis í dag. Í Danmörku hafði AGF betur gegn Lyngby í Íslendingaslag.

Mikael Neville Anderson er að glíma við meiðsli og var hann ekki með AGF í leiknum en hjá Lyngby byrjaði Sævar Atli Magnússon og lék 67 mínútur.

Freyr Alexandersson og hans lærisveinar í Lyngby bíða enn eftir fyrsta sigrinum í dönsku úrvalsdeildinni því AGF hafði betur í dag, 1-0. Eina mark leiksins gerði Yann Bisseck þegar 20 mínútur voru liðnar af leiktímanum.

AGF hefur farið vel af stað í Danmörku og er með tíu stig eftir fimm leiki. Lyngby er í tíunda sæti af tólf liðum með tvö stig.

Tveir á bekknum í Svíþjóð
Valgeir Lunddal Friðriksson var ónotaður varamaður þegar Häcken vann 1-0 sigur gegn Mjällby í sænsku úrvalsdeildinni. Valgeir hefur komið við sögu í 15 leikjum af 18 á tímabilinu en var ekki með í dag.

Häcken er nokkuð óvænt að berjast á toppnum í Svíþjóð og er sem stendur í öðru sæti, einu stigi á eftir toppliðinu.

Þá var markvörðurinn efnilegi Adam Ingi Benediktsson á bekknum hjá Gautaborg í 0-1 tapi gegn Hammarby. Jón Guðni Fjóluson er á meðal leikmanna Hammarby en er fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Það er Hammarby sem er á toppnum núna. Gautaborg situr í sjötta sæti.
Athugasemdir
banner