Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 15. nóvember 2020 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Skoða að bæta við skiptingum ef leikmenn fá heilahristing
Mynd: ÍSÍ
FIFA og IFAB hafa staðfest að verið sé að skoða að bæta nýrri reglu við fótboltann í tilraun til að takmarka neikvæð áhrif höfuðmeiðsla á heilsu leikmanna.

Nýja reglan segir að lið megi gera skiptingu ef leikmaður fær heilahristing, þó liðið sé búið með allar skiptingar þegar atvikið á sér stað. Mögulegt er að bæði lið fái auka skiptingu ef leikmaður verður fyrir höfuðmeiðslum til að forðast misnotkun á reglunni.

Reglan verður rædd meðal stjórnenda IFAB og FIFA 23. nóvember og tekin ákvörðun um hvernig hún mun hljóma og hvenær verður hægt að hefja prófanir. Ekki er talið að reglan verði prófuð í enska boltanum fyrr en á næstu leiktíð.

Sérstakar skiptingar vegna heilahristinga áttu að vera notaðar í fyrsta sinn á Ólympíuleikunum í Tókýó en þeim var frestað vegna Covid.

Heilahristingar hafa verið mikið í umræðunni á Englandi að undanförnu eftir að sífellt fleiri goðsagnir úr enska boltanum hafa greinst með elliglöp og aðrar heilaskemmdir á undanförnum árum.

„Ég skil að það verði að prófa svona hluti en mér finnst ótrúlegt að það sé ekkert búið að gera í þessu árið 2020. Við höfum rætt leiðir til að forðast heilaskaða í fótbolta í mörg ár en það hefur ekki borið árangur," sagði Luke Griggs framkvæmdastjóri Headway, góðgerðarsamtaka sem berjast gegn heilaskemmdum.

„Það sást í Covid að knattspyrnusamtökin geta breytt reglum í snatri ef vilji er fyrir hendi. Skiptingar fóru úr þremur í fimm en við höfum reynt að gera eitthvað til að sporna við heilaskaða í mörg ár án árangurs. Okkar tillaga er sú að nota tímabundnar skiptingar."

Tímabundnar skiptingar virka þannig að leikmaður fer útaf eftir höfuðhögg og það kemur maður inn í hans stað. Ef læknir telur leikmanninn hafa fengið heilahristing þá stendur skiptingin, en ef leikmaðurinn getur haldið áfram þá hefur hann 10 mínútur til að koma sér aftur inn á völlinn.

„Það er erfitt að greina heilahristing og tímabundnar skiptingar hafa virkað mjög vel í rúgbí. Af hverju ættu þær ekki að virka í fótbolta?"
Athugasemdir
banner
banner
banner