Við sögðum frá því fyrir rúmum mánuði síðan að sonur íslenska landsliðsþjálfarans væri byrjaður að spila með unglingalandsliði Belgíu.
Viktor Nói Viðarsson skrifaði undir sinn fyrsta atvinnumannasamning við Gent í Belgíu á síðasta ári.
Viktor Nói, sem varð fimmtán ára fyrr á þessu ári, er djúpur miðjumaður sem getur einnig leikið sem miðvörður. Viktor er greinilega mjög efnilegur því það er búið að velja hann í yngri landslið, en ekki í yngri landslið Íslands. Fram kemur á Transfermarkt að hann sé búinn að spila sex leiki með U15 landsliði Belgíu.
Hann hafi tekið þátt í þessum leikjum fyrr á þessu ári og meira að segja hafi hann verið með fyrirliðabandið í leik gegn Mexíkó sem vannst í vítaspyrnukeppni.
Viktor Nói er búinn að alast upp í Belgíu og er móðir hans belgísk, en faðir hans er fyrrum landsliðsmaður Íslands og núverandi landsliðsþjálfari.
Arnar var spurður að því á fréttamannafundi í dag hvort það komi til greina að sonurinn spili með Íslandi í framtíðinni.
„Ég er mjög rólegur yfir þessu öllu saman," sagði Arnar.
„Þetta er einfaldlega þannig að hann er Belgi og mamma hans er belgísk. Hann býr í Belgíu."
„Þetta er eitthvað sem við höfum rætt innanhúss. Við eigum bara að leyfa börnunum að vera börn og svo kemur bara í ljós hvernig þetta endar. Hann er bara 15 ára og það mikilvægasta er hann hafi gaman að því að vera í íþróttum," sagði Arnar en það er ljóst að miðað við viðbrögð Jörunds Áka Sveinssonar, sem þjálfar U17 landsliðið, á fundinum að þá sé búið að reyna að fá Viktor Nóa í íslensku unglingalandsliðin.
Athugasemdir