Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 17. ágúst 2022 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Camavinga fær tólfuna frá Marcelo - Tchouameni tekur treyju Bale
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Eduardo Camavinga skipti um skoðun fyrir upphaf nýs tímabils og ákvað að taka treyju númer 12 af Marcelo í staðinn fyrir að taka númer 16 af Luka Jovic. 


Camavinga var með treyju númer 25 á sínu fyrsta tímabili hjá Real Madrid þar sem hann stóð sig með sóma. Hann tók þátt í 40 leikjum er félagið vann bæði spænsku deildina og Meistaradeildina.

Camavinga, sem er 19 ára miðjumaður, ætlaði að taka treyju númer 16 fyrir komandi tímabil og klæddist henni í æfingaleikjum Real Madrid á undirbúningstímabilinu. Hann klæddist svo gömlu treyjunni sinni númer 25 í úrslitaleik Ofurbikarsins en var kominn í tólfuna hans Marcelo aðeins fjórum dögum síðar þegar Real heimsótti Almeria í fyrstu umferð spænska deildartímabilsins.

Marcelo hefur klæðst tólfunni síðustu fimmtán ár og er hann goðsögn hjá félaginu. Camavinga vonast til að feta í fótspor brasilíska bakvarðarins.

„Ég mun klæðast þessari treyju af stolti og virðingu. Ég naut þeirra forréttinda að spila heilt tímabil með Marcelo sem er goðsögn hérna," sagði Camavinga.

Antonio Rüdiger tók treyju númer 22 frá Isco sem er farinn á frjálsri sölu. Rudiger vildi tvistinn en Dani Carvajal hefur klæðst honum undanfarin ár og er ekki tilbúinn til að sleppa honum frá sér.

Aurelien Tchouameni vildi áttuna en tekur númer 18 af Gareth Bale í staðinn. Toni Kroos er nefnilega númer 8.


Athugasemdir
banner