Heimild: Daily Mail
Þann 16. ágúst fer enska úrvalsdeildin af stað og eftirvænting fótboltaáhugafólks er að magnast. Leikmannamál Manchester United hafa verið í brennidepli að undanförnu og til gamans setti Daily Mail saman mögulegt byrjunarlið United.
Í hjarta varnarinnar, við hlið Lisandro Martínez, er Leny Yoro en hann er á leið í læknisskoðun hjá félaginu. Franska félagið Lille samþykkti tilboð að verðmæti 52 milljónum punda í Yoro.
Diogo Dalot var einn ljósasti punkturinn hjá United á síðasta tímabili og hann er í hægri bakverðinum.
Á miðsvæðinu má svo finna nafn Manuel Ugarte sem hefur verið orðaður við United en félagið hefur þó ekki enn lagt fram formlegt tilboð. Ugarte er 23 ára úrúgvæskur landsliðsmaður sem kom til PSG frá Sporting fyrir ári síðan.
Þá er Jadon Sancho settur á vænginn en hann er byrjaður aftur að æfa með United eftir að hann og Erik ten Hag sammældust um að grafa stríðsöxina. Það yrði risastórt ef Sancho kæmi aftur inn í lið United enda flestir búnir að útiloka það að hann myndi spila aftur fyrir Ten Hag.
Þrátt fyrir kaupin á Joshua Zirkzee er búist við því að Rasmus Höjlund verði sóknarmaður númer eitt. Zirkzee mun þó veita danska landsliðsmanninum samkeppni.
Athugasemdir