Enska B-deildarfélagið Watford hefur hafnað öðru tilboði Newcastle United í brasilíska sóknarmanninn Joao Pedro, en þetta kemur fram á Athletic í dag.
                
                
                                    Newcastle United lagði fram 20 milljón punda tilboð í Brasilíumanninn á dögunum en því tilboði var hafnað um leið.
Pedro, sem er 20 ára gamall, skoraði þrjú mörk í 28 leikjum fyrir Watford í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, en hann var einn af ljósu punktunum er liðið féll niður um deild.
Newcastle hefur verið í viðræðum við Watford um kaup á honum en Athletic segir nú frá því að félagið hafi hafnað öðru tilboði Newcastle í leikmanninn.
Tilboðið var í kringum 25 milljónir punda. Newcastle hefði greitt 22 milljónir strax og 3 milljónir punda í árangurstengdar greiðslur.
Watford hafnaði því um leið en félagið vill halda Joao Pedro og vonast til þess að hann geti hjálpað liðinu að komast aftur upp í deild þeirra bestu.
Athugasemdir
                                                                
                                                        
 
        

 
                    
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                    
                        
        
         
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                 
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                
                        
        
        

