sun 18. september 2022 11:40
Ívan Guðjón Baldursson
Abraham um Dybala: Mikill leiðtogi þó hann líti út fyrir að vera 12 ára
Mynd: EPA

Tammy Abraham, sóknarmaður AS Roma á Ítalíu, svaraði spurningum frá Daily Mail í grein sem birtist í morgun. Roma, sem tekur á móti Atalanta í stórleik í dag, er meðal toppliða ítölsku deildarinnar með 13 stig eftir 6 umferðir.


Abraham fór víðan völl og ræddi meðal annars Erling Haaland og Harry Kane, tvo af bestu sóknarmönnum Evrópu.

„Ég er með þannig persónuleika að ég vil alltaf gera betur. Ég fylgist náið með Erling Haaland sem er mikið í umræðunni þessa dagana. Ég fylgist með honum og nota hann sem hvatningu til að gera betur," sagði Abraham sem var valinn í enska landsliðið á dögunum.

„Það er mikill heiður að vera valinn í landsliðið því samkeppnin er svo mikil. Maður er aldrei viss um hvort maður sé með sæti í liðinu og þegar það kemur að landsliðsvalinu breytist maður aftur í lítinn strák. Ég tala mikið við Tomori (fyrrum samherji hjá Chelsea og núverandi leikmaður Milan) og við vorum eins og litlir krakkar þegar við fengum landsliðskallið. Við öskruðum í símann af gleði, við vitum hversu mikilvægt það er að fá landsliðskall núna þegar það er stutt í HM.

„Gæðin í hópnum eru mikil og ég nýti allan þann tíma sem ég fæ með Harry Kane til að læra af honum. Hann er stórkostlegur leikmaður."

Abraham var að lokum spurður út í argentínska fótboltasnillinginn Paulo Dybala sem gekk í raðir Roma í sumar.

„Hann er ótrúlega hæfileikaríkur, alveg jafn góður og í FIFA. Hann kemur inn með mikla leiðtogahæfileika þó hann líti út fyrir að vera 12 ára! Hann er með reynslu eftir að dvölina hjá Juventus. Hann kann að vinna titla, sem er nákvæmlega það sem við viljum gera hér."

Abraham skoraði 27 mörk í 53 leikjum á sínu fyrsta tímabili í Róm. Hann er kominn með tvö mörk í sjö leikjum á nýju tímabili.


Athugasemdir
banner
banner
banner