Mikið ber á milli Man Utd og Roma í viðræðum um Zirkzee - Chelsea hyggst styrkja miðsvæðið og er orðað við Mainoo og Wharton
   fim 18. desember 2025 11:30
Kári Snorrason
Umfjöllun
Undir áhrifum Todd Boehly og félaga
Breiðablik mætir Strasbourg, toppliði Sambandsdeildarinnar, í kvöld.
Breiðablik mætir Strasbourg, toppliði Sambandsdeildarinnar, í kvöld.
Mynd: EPA
Rosenior hefur verið í umræðunni sem framtíðarstjóri Chelsea.
Rosenior hefur verið í umræðunni sem framtíðarstjóri Chelsea.
Mynd: EPA
Todd Boehly og Clearlake Capital mynda saman eigendahópinn BlueCo.
Todd Boehly og Clearlake Capital mynda saman eigendahópinn BlueCo.
Mynd: EPA
Ben Chilwell gekk til liðs við Strasbourg í sumar frá Chelsea.
Ben Chilwell gekk til liðs við Strasbourg í sumar frá Chelsea.
Mynd: EPA
Breiðablik mætir Strasbourg annað kvöld í lokaumferð Sambandsdeildarinnar. Blikar þurfa sigur á Strasbourg, sem er á toppi Sambandsdeildarinnar, til þess að eiga möguleika á að komast í umspil.

Strasbourg er um þessar mundir í efsta sæti Sambandsdeildarinnar og situr í sjöunda sæti í frönsku deildinni. Félagið er þannig komið aftur í fremstu röð eftir miklar vendingar á síðasta áratugi.

Árið 2011 fór Strasbourg í þrot og féll niður í fimmtu deild. Endurreisnin gekk þó hratt og örugglega fyrir sig því liðið var komið aftur í efstu deild aðeins sex árum síðar.

Óvinsælt meðal stuðningsmanna
Hópur fjárfesta keypti félagið fyrir eina evru árið 2012 og var farið í uppbyggingarfasa. Þegar frekari fjárfestingar urðu nauðsynlegar var Strasbourg selt til BlueCo í júní 2023 fyrir um 65 milljónir punda, aðeins rúmu ári eftir að sami eigendahópur keypti Chelsea fyrir 4,25 milljarða punda.

Tengslin við Chelsea eru afar óvinsæl meðal stuðningsmanna, sem segja liðið vera einhvers konar varalið Chelsea.

Fjöldi leikmanna hafa farið á milli félaganna, þar á meðal Ben Chilwell og Mathis Amougou sem voru keyptir frá Chelsea í sumar. Þá eru ungir leikmenn á borð við Kendry Paez, Mike Penders og Mamadou Sarr á láni hjá franska félaginu á þessu tímabili.

Skyldi svo fara að Mikhailo Mudryk myndi snúa aftur á völlinn innan tíðar hefur verið greint frá því að Lundúnarliðið myndi eflaust lána hann til Strasbourg, ef ekki selja hann til félagsins.

Meðalaldur upp á 21,5 ár
Það er ljóst að það eru mikil líkindi á meðal Chelsea og Strasbourg, bæði lið reyna að byggja á ungum leikmannahóp og horft er til framtíðar.

Þeir frönsku eru með yngsta leikmannahópinn meðal stærstu deilda Evrópu, meðalaldur liðsins aðeins 21,5 ár. Chelsea er í fjórða sæti á sama lista, með þann yngsta á Englandi.

Strasbourg hefur þá verið lýst sem einhvers konar þróunarmiðstöð fyrir framtíðarleikmenn Chelsea, þar sem leikmenn eru keyptir fyrst til Frakklands og síðar meir geta þeir tekið skrefið til Lundúna.

Stjórinn orðaður við starfið á Brúnni
Stjóri liðsins er Englendingurinn Liam Rosenior. Rosenior, sem stýrði áður Hull, var ráðinn á síðasta ári eftir að Patrick Vieira var látinn taka poka sinn.

Enski þjálfarinn nýtur mikilla vinsælda innan BlueCo og það hefur verið mikið í umræðunni að Rosenior sé ætlaður í það að vera framtíðarstjóri Chelsea síðar meir á ferlinum.

Eftir furðuleg ummæli Enzo Maresca fyrir rúmri viku var nafn Rosenior á flestum listum fjölmiðla sem greindu frá mögulegum arftökum Maresca skyldi hann víkja úr starfinu.

Eigið verkefni
Stjórnarmenn Strasbourg vísa fullyrðingum um að félagið sé einhvers konar varalið Chelsea á bug.

Stjórinn Rosenior hefur lagt ríka áherslu á að Strasbourg sé sjálfstætt félag en ekki einhvers konar varalið Chelsea. Hann bendir á að liðið sé með yngsta leikmannahóp Evrópu og sé byggt upp með skýra eigin framtíðarsýn.

Samkvæmt Rosenior er raunveruleikinn sá að bæði félög séu stór og rótgróin í sínum löndum, en ekki háð hvort öðru.
Athugasemdir
banner