Barcelona og Real Madrid vilja Bernardo Silva - Gravenberch til Tyrklands? - Mikill áhugi á Nacho
   mið 19. apríl 2023 20:17
Brynjar Ingi Erluson
Mjólkurbikarinn: Dramatískt sigurmark í Garðabæ - Breiðablik, KA og KR áfram
Stjarnan er komin áfram
Stjarnan er komin áfram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni Snær Ólafsson greip utan um Eið Aron en ekkert dæmt
Árni Snær Ólafsson greip utan um Eið Aron en ekkert dæmt
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR-ingar unnu góðan sigur á Þrótti V.
KR-ingar unnu góðan sigur á Þrótti V.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Pætur Petersen skoraði tvö fyrir KA
Pætur Petersen skoraði tvö fyrir KA
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Oliver skoraði fyrra mark Blika í sigrinum á Fjölni
Oliver skoraði fyrra mark Blika í sigrinum á Fjölni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Omar Sowe skoraði sigurmark Leiknis undir lok leiksins
Omar Sowe skoraði sigurmark Leiknis undir lok leiksins
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Fjögur Bestu deildarlið eru komin áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins en hæst ber að nefna 1-0 sigur Stjörnunnar á ÍBV í framlengdum leik. Sindri Þór Ingimarsson gerði sigurmarkið í uppbótartíma í framlengingu.

Eina dauðafæri fyrri hálfleiksins átti Ísak Andri Sigurgeirsson á 17. mínútu. Eggert Aron Guðmundsson átti góða sendingu á Ísak sem var kominn vinstra megin í teiginn. Hann setti boltann á hægri löppina og reyndi að stýra honum í fjærhornið en Jón Kristinn Elíasson varði frábærlega.

Bæði lið fengu ágætis hálffæri í fyrri hálfleiknum en vantaði aðeins herslumuninn. Staðan í hálfleik var því markalaus.

Það færðist meira fjör í síðari hálfleikinn. Alex Freyr Hilmarsson fékk gott færi í byrjun síðari hálfleiksins. Boltinn datt til hans eftir hornspyrnu en varnarpakki Stjörnunnar var þéttur og rataði því skotið ekki á markið.

Sigurður Arnar átti því næst þrumuskot en boltinn yfir markið, eftir það fóru Stjörnumenn að sækja og var Ísak Andri nálægt því að koma liðinu í forystu en skot hans fór í stöng eftir góðan undirbúning frá Jóhanni Árna Gunnarssyni.

Stjörnumenn vildu fá vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar er Ísak féll í teignum en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, sýndi því lítinn áhuga.

Undir lok leiksins fengu bæði lið fína sénsa til að gera sigurmarkið. Joey Gibbs átti lélegan skalla framhjá og þá var Eiður Aron Sigurbjörnsson hársbreidd frá því að tryggja Eyjamönnum sigurinn með skalla en Örvar Logi Örvarsson bjargaði á línu.

Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunnar, hélt utan um Eið í því færi og spurning hvort Vilhjálmur hafi átt að dæma vítaspyrnu, en atvikið fór greinilega framhjá dómurunum.

Ekkert var skorað eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að fara með leikinn í framlengingu. Bjarki Björn Gunnarsson, leikmaður Eyjamanna, var rekinn af velli á 95. mínútu er hann reyndi að stöðva skyndisókn Stjörnumanna.

Stjörnumenn hótuðu og hótuðu í síðari hluta framlengingar og á endanum kom sigurmarkið. Hádramatískt sigurmark og það í uppbótartíma framlengingarinnar. Sindri Þór Ingimarsson gerði það með skalla og Stjarnan því komin í 16-liða úrslit.

Þolinmæðisvinna hjá KR og stórsigur KA

KR vann 3-0 sigur á Þrótti V. á KR-vellinum. Þróttarar voru vel skipulagðir stærstan hluta leiksins og þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks var staðan markalaus og lítið um hættuleg færi.

Snemma í síðari hálfleik tóku KR-ingar forystuna. Theodór Elmar Bjarnason átti fyrirgjöf sem var hreinsuð frá en ekki nógu langt því Kennie Chopart fékk boltann og átti skot sem endaði í markinu.

Olav Öby gerði annað mark KR-inga á 60. mínútu og það beint úr aukaspyrnu. Skot hans hafnaði í þverslá og yfir línuna. Ellefu mínútum fyrir leikslok kom Hreinn Ingi Örnólfsson boltanum í eigið net eftir fyrirgjöf frá Kristni Jónssyni. Góður 3-0 sigur KR-inga sem eru komnir í 16-liða úrslit.

KA vann á meðan 5-0 sigur á Uppsveitum á Greifavellinum. KA-menn náðu að ganga frá leiknum í fyrri hálfleik. Pætur Petersen skoraði á 9. mínútu eftir hornspyrnu og fimm mínútum síðar var það Dusan Brkovic sem stangaði boltann í netið og það aftur eftir hornspyrnu.

Pætur gerði annað mark sitt á 27. mínútu og það upp úr engu en boltinn fór af varnarmanni og í netið. Undir lok fyrri hálfleiksins kom svo þriðja mark KA eftir hornspyrnu og aftur var það Dusan sem skallaði boltann í markið.

Sveinn Margeir Hauksson gerði fimmta og síðasta mark KA á 61. mínútu með þéttingsföstu skoti og lokatölur því 5-0 KA í vil.

Blikar örugglega áfram

Breiðablik tryggði sæti sitt í 16-liða úrslit bikarsins með því að vinna Fjölni, 2-0, í Egilshöllinni í Grafarvogi.

Liðin skiptust á færum í byrjun leiks en fyrsta markið gerði Oliver Sigurjónsson á 17. mínútu er boltinn datt til hans eftir hornspyrnu og Blikar í forystu.

Hákon Ingi Jónsson var nálægt því að jafna undir lok fyrri hálfleiks en Brynjar Atli Bragason varði frábærlega. Fjölnismenn komu sér í góð færi í leiknum en Brynjar sá við þeim í hvert einsta skipti.

Það var því smá léttir fyrir Blika þegar annað markið kom á 60. mínútu. Ágúst Orri Þorsteinsson skoraði það. Eyþór Aron Wöhler átti sendingu sem Sigurjón Daði Harðarson, markvörður Fjölnis, var í vandræðum með og endaði boltinn hjá Ágústi sem kláraði vel.

Bæði lið komu sér í álitleg færi eftir það en fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-0 Blikum í vil.

Leiknir vann þá Selfoss, 1-0, á Domusnova-vellinum. Selfyssingar áttu skot í bæði stöng og slá í fyrri hálfleiknum. Leiknismenn voru töluvert meira með boltann en náðu ekki að gera sér almennilegt mat úr því. Það var ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiksin sem liðið kom sér í tvö góð færi en hvorugt í markið.

Það var þá svipað í þeim síðari. Selfyssingar sköpuðu mikla hættu framan af en undir lokin náðu Leiknismenn að gera sigurmarkið er Sindri Björnsson kom með sendingu inn á Omar Sowe sem skoraði. Lokatölur 1-0 fyrir Leikni.

Úrslit og markaskorarar:

Leiknir R. 1 - 0 Selfoss
1-0 Omar Sowe ('89 )
Lestu um leikinn

Fjölnir 0 - 2 Breiðablik
0-1 Oliver Sigurjónsson ('17 )
0-2 Ágúst Orri Þorsteinsson ('60 )
Lestu um leikinn

KA 5 - 0 Uppsveitir
1-0 Pætur Joensson Petersen ('9 )
2-0 Dusan Brkovic ('14 )
3-0 Pætur Joensson Petersen ('27 )
4-0 Dusan Brkovic ('45 )
5-0 Sveinn Margeir Hauksson ('61 )
Lestu um leikinn

Stjarnan 1 - 0 ÍBV
1-0 Sindri Þór Ingimarsson ('122 )
Rautt spjald: Bjarki Björn Gunnarsson, ÍBV ('95) Lestu um leikinn

KR 3 - 0 Þróttur V.
1-0 Kennie Knak Chopart ('52 )
2-0 Olav Öby ('60 )
3-0 Hreinn Ingi Örnólfsson ('79 , sjálfsmark)
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner