Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 19. maí 2023 11:01
Elvar Geir Magnússon
KR batt enda á 479 mínútna markaþurrð
KR-ingar fagna langþráðu marki.
KR-ingar fagna langþráðu marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stíflan brast hjá KR í gær þegar liðið vann 4-3 sigur gegn Fylki í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í gær. Liðið hafði farið í gegnum fimm leiki í röð í Bestu deildinni án þess að skora mark.

Alls hafði KR leikið 479 mínútur án þess að skora þegar Kristján Flóki Finnbogason kom liðinu yfir gegn Fylki á 19. mínútu.

Lestu um leikinn: Fylkir 3 -  4 KR

Rúmum tíu mínútum síðar tvöfaldaði Jóhannes Kristinn Bjarnason forystuna með sínu fyrsta marki fyrir KR. Aron Þórður Albertsson kom KR í 3-1 og síðasta mark liðsins var sjálfsmark.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var spurður að því hvort það hafi verið léttir að stíflan hafi brostið í markaskorun?

„Já þú vilt skora mörk. Það er mjög svekkjandi að fara í gegnum fimm leiki án þess að skora og þá er eitthvað að og ekki í lagi. En við leystum það í dag og ég er mjög sáttur með það," segir Rúnar.

KR er í neðsta sæti Bestu deildarinnar og mætir Fram á mánudag. Heldur Rúnar að þessi sigur muni gefa KR mikið fyrir komandi átök í deildinni?

„Já að sjálfsögðu. Leikmenn eru komnir með sjálfstraust og trúa á það að við getum unnið fótboltaleiki og skorað mörk. Við þurfum bara að nýta okkur þennan meðbyr og halda þessu áfram.“

Hér má sjá mörkin úr leik Fylkis og KR
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner