banner
   mán 19. júlí 2021 10:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óli Jó mætir Rosenborg á ný - Sýndi peningamerki síðast
Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH og fyrrum þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH og fyrrum þjálfari Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH mun mæta Rosenborg frá Noregi í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Síðast þegar Rosenborg mætti íslensku liði í Evrópukeppni, það var í fyrra er Breiðablik mætti norska stórliðinu. Svo fór að Rosenborg vann það 4-2.

Rosenborg hefur verið mikið í því að mæta íslenskum liðum á síðustu árum. Þeir mættu nefnilega Valsmönnum í forkeppni Meistaradeildarinnar 2018. Það var eftirminnilegt einvígi en Valur vann 1-0 á Hlíðarenda.

Í útileiknum var það dómarinn sem eyðilagði leikinn.

„Það hefur ekki farið framhjá neinum sem skoðar þessa skýrslu að dómgæslan var skandall. Allir þrír vítaspyrnudómarnir rangir. Enginn á vellinum skildi upp né niður í manninum. Að þessi gaur sé að fá Evrópuverkefni er rannsóknarefni," skrifaði Elvar Geir Magnússon í skýrslu sinni frá leiknum. Hann gaf búlgarska dómaranum núll í einkunn.

Valsmenn voru að fara áfram á útivallarmörkum þegar dómarinn ákvað að dæma víti í uppbótartíma.

„Í stöðunni 2-1 dæmdi hann okkur út úr þessari keppni á síðustu mínútunni," sagði Ólafur Jóhannesson, þáverandi þjálfari Vals og núverandi þjálfari FH.

Ólafur á ekki góðar minningar á móti Rosenborg. Hann sýndi peningamerki upp í stúkuna síðast þegar hann mætti Rosenborg.

FH leikur fyrri leik sinn við Rosenborg á heimavelli á fimmtudag, og seinni leikurinn í Þrándheimi viku síðar. Valur mætir einnig norsku liði; meisturunum í Bodö/Glimt.

„Rosenborg er ekki sama lið og þeir voru, þeir voru í Meistaradeildinni og unnu deildina ár eftir ár. Þetta er ekki alveg það sama. Á hinn bóginn, þá held ég að Valur og FH séu að fara að kveðja eftir næsta einvígi," sagði Elvar Geir í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardag.

„Það yrði rosalegt afrek ef Valur myndi vinna Bodö/Glimt, það yrði ótrúlegt afrek. Það er svipaður sjarmi af því ef FH myndi vinna Rosenborg," sagði Benedikt Bóas Hinriksson.

Þeir spá því að Breiðablik fari áfram á móti Austria Vín en hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn hér að neðan.

Sjá einnig:
Myndband: Óli Jó sýndi stúkunni peningamerki
Boltavikan - Evrópa, Lengjudeildin og Davíð Smári á línunni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner