Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   fös 19. júlí 2024 12:42
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jökull kemur á láni í Mosó - „Gríðarlega ánægður að hafa landað þessu"
Lengjudeildin
Jökull er fæddur árið 2001 og á að baki einn A-landsleik.
Jökull er fæddur árið 2001 og á að baki einn A-landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Reading
Mynd: KSÍ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í gær var greint frá því að Jökull Andrésson væri að ganga í raðir Aftureldingar. Í dag ræddi Fótbolti.net við Magnús Má Einarsson, þjálfara liðsins, og staðfesti hann tíðindin. Hann segir að Jökull komi á láni til Aftureldingar frá Reading.

„Jökull er uppalinn hjá Aftureldingu, með stórt Aftureldingarhjarta. Hann hefur verið frá í talsverðan tíma vegna meiðsla en er kominn á fleygiferð núna. Við erum að missa annan af markmönnunum okkar út í skóla eftir tvær vikur og það var alveg ljóst að við myndum alltaf sækja markmann í júlí. Þegar möguleiki opnaðist á að fá Jökul þá var engin spurning um að keyra á það," segir Maggi.

Birkir Haraldsson er á leið til Bandaríkjanna en hann hefur varið mark Aftureldingar í síðustu tveimur leikjum. Afturelding vissi af því í vetur og því var alltaf planað að fá inn markmann í sumarglugganum.

„Barna- og unglingastarfið í Aftureldingu er öflugt og margir öflugir leikmenn farið þar í gegn og spilað erlendis. Að sjálfsögðu tökum við þessum leikmönnum opnum örmum þegar þeir vilja koma heim. Það er frábært að geta fengið Jökul, frábær karakter og frábær markvörður. Hann mun hjálpa okkur mikið seinni hluta mótsins og ég er mjög spenntur að fá að sjá hann í markinu með okkur. Það er líka gaman fyrir félagið að þessir strákar vilja koma heim, sjá að það er gott starf í gangi og hann hefur dottið inn á æfingar hjá okkur undanfarin ár þegar hann er heima í fríi. Ég held hann sjái að við erum að gera þetta af mikill fagmennsku og frábært að hann sé tilbúinn að taka þetta skref. Ég er gríðarlega ánægður með að hafa landað þessu."

Jökull er samningsbundinn Reading og kemur á þriggja mánaða lánssamningi til Aftureldingar.

„Hann klárar tímabilið með okkur og er svo áfram hjá Reading."

Eru einhverjar vangaveltur um að taka hann alfarið frá Reading?

„Að sjálfsögðu hefðum við áhuga á því, en það verður bara að koma í ljós. Hann er samningsbundinn Reading fram á næsta sumar. Hann er hörkumarkmaður svo við þurfum bara að sjá hvernig þróast. Eins og hann er að koma til að hjálpa okkur þá viljum við líka hjálpa honum að koma sér af stað aftur eftir meiðsli. Hann er búinn að vera lengi frá og við viljum hjálpa honum að komast í sitt besta form aftur. Hann er hægt og bitandi að komast í það, búinn að æfa með Reading á undirbúningstímabilinu og lítur vel út. Við viljum hjálpa honum að komast í gang og finna gleðina í fótboltanum á ný. Ég held þetta sé mjög jákvætt fyrir báða aðila. Við tökum svo stöðuna eftir tímabilið með framhaldið."

Maggi vonast til þess að allir pappírar verði kláraðir í dag og að Jökull verði kominn með leikheimild fyrir heimaleikinn gegn Keflavík næsta fimmtudag.

Jökull á að baki A-landsleik og var Maggi spurður hvort hann myndi eftir því hvenær leikmaður með landsleik að baki spilaði síðast með Aftureldingu.

„Það hafa auðvitað leikmenn spilað A-landsleiki eftir að þeir fóru frá Aftureldingu. Ætli Helgi Sig, 2013, hafi ekki verið sá síðasti. Ég þori ekki að fara með það hvort þeir séu fleiri."

„Jökull er ungur ennþá og á hörku feril fyrir höndum,"
sagði Maggi.
Athugasemdir
banner
banner
banner