Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 20. janúar 2020 13:30
Sigmundur Ó. Steinarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
8 landsliðsmenn sóttir í hús Unnar í Nýlendu á Akranesi
Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson
Mágarnir Þórður Þórðarson og Sveinn Teitsson.
Mágarnir Þórður Þórðarson og Sveinn Teitsson.
Mynd: Sigmundur Ó. Steinarsson
Bræðurnir Ólafur og Teitur Þórðarsynir.
Bræðurnir Ólafur og Teitur Þórðarsynir.
Mynd: Skapti Hallgrímsson
 Stefán Teitur Þórðarson
Stefán Teitur Þórðarson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar Teitur Benediktsson (f. 14. nóvember 1904) frá Sandabæ og Unnur Sveinsdóttir í Nýlendu við Suðurgötu (f. 11. ágúst 1910) giftu sig á Akranesi sáu ekki margir fyrir sér að þau ættu eftir að móta eina mestu knattspyrnufjölskyldu á Íslandi. Þau eignuðust þrjú börn, Svein (f. 1. mars 1931), Ester (f. 26. september 1932) og Margréti (f. 31. ágúst 1937).

Teitur náði ekki að lifa að sjá afkomendur sína leika listir sínar á knattspyrnuvellinum. Hann ásamt fjórum af sex skipverjum línubátsins Ólafs Bjarnasonar fórust í sviplegu slysi þegar léttbátur skipsins hvolfdi í miklu brimi við lendingu í Teigavör á Akranesi, 18. febrúar 1939.

Teitur var aðeins 34 árs er hann lést og varð Unnur ekkja, 28 ára, með þrjú ung börn. Sveinn var að verða 8 ára, Ester sex ára og Margrét eins og hálfs árs.

Teitur og Unnur byggðu Nýlendu, Suðurgötu 37, 1931 og þaðan eiga ættir að rekja 8 a-landsliðsmenn í knattspyrnu, sem hafa leikið 217 landsleiki. Síðastur til að stimpla sig inn í "Nýlendu-klúbbinn" var Stefán Teitur Þórðarson, sem lék sinn fyrsta landsleik í sigurleik gegn Kanada, 1:0, í Irvine í Kaliforníu 16. Janúar 2020, er hann kom inná sem varamaður og þá var hann í byrjunarliði Íslands í sigurleik gegn El Salvador, 1:0, í Carson í Kaliforníu 20. janúar.

Við skulum líta nánar á Nýlendu-klúbbinn.
* Sveinn, sonur Teits og Unnar, var leikmaður í hinu fræga Gullaldarliði ÍA og lék hann 41 landsleik, skoraði tvö mörk. Sonur hans er Árni, sem var einnig margfaldur meistari með ÍA og lék 50 landsleiki, skoraði fjögur mörk.
* Yngri dóttir Teits og Unnar, Margrét, er móðir Sigursteins Gíslasonar, sem lék 22 landsleiki og var margfaldur meistari með ÍA og KR.
* Ester, eldri dóttir þeirra heiðurshjóna, giftist Þórði Þórðarsyni, sem lék við hlið Sveins með Gullaldarlið ÍA og landsliðinu. Þórður lék 18 landsleiki og skoraði 9 mörk.

Tveir af sonum Esterar og Þórðar, Teitur og Ólafur, voru sigursælir meistarar og báðir léku þeir sem atvinnumenn; Teitur í Svíþjóð, Frakklandi og Sviss, Ólafur í Noregi. Teitur lék 41 landsleik, níu mörk. Ólafur lék 72 landsleiki, fimm mörk.

Bróðir þeirra, Þórður, er faðir Þórðar, markvarðar, sem lék einn landsleik og Stefáns Þórs, sem lék 6 landsleiki og skoraði eitt mark. Unnur var langamma þeirra.

Þórður, markvörður, er faðir Stefáns Teits, sem lék tvo landsleiki í Bandaríkjaferðinni á dögunum og Þórðar Þorsteins, sem hefur verið í landsliðshóp ungmennalandsliðs Íslands, án þess að leika landsleik. Unnur er langalangamma þeirra.

Stefán Þór er giftur Magneu Guðlaugsdóttur, sem hefur leikið landsleiki. Oliver, sonur þeirra, sem er í herbúðum Norrköping í Svíþjóð, sem faðir hans og Þórður (markvörður), frændi hans, léku með um tíma. Oliver hefur leikið 17 landsleiki með yngri landsliðunum.

Eins og fyrr segir þá lék Stefán Teitur sína fyrstu landsleiki í Bandaríkjunum á dögunum - 64 árum eftir að langafi hans, Þórður Þórðarson og Sveinn Teitsson, fóru með landsliðinu í fyrstu knattspyrnuferðina til Bandaríkjanna 1956, þar sem landsliðið lék þrjá leiki. Stefán var fjórði ættliðurinn í fjölskyldu Esterar og Þórðar, til að leika með landsliðinu.

Þess má geta til gamans að þegar Unnur, ættmóðir knattspyrnufjölskyldunnar á Akranesi, var eitt sinn spurð um boltaspark strákanna, sagði hún að það væri svo sem ágætt að þeir séu að pjakkast með boltann. Þeir væri þá ekkert að gera neitt óhollt á meðan. „Strákarnir hafi gaman af þessu!“
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner