„Stemningin er mjög góð fyrir norðan, það er 25 stiga frost og sól úti. Það eru allir sáttir," sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, í útvarpsþættinum Fótbolta.net um liðna helgi.
Hallgrímur er að undirbúa sitt lið fyrir Bestu deildina sem er framundan, en KA er búið að leika ágætlega á undirbúningstímabilinu og er komið í úrslitaleik Lengjubikarsins.
Hallgrímur er að undirbúa sitt lið fyrir Bestu deildina sem er framundan, en KA er búið að leika ágætlega á undirbúningstímabilinu og er komið í úrslitaleik Lengjubikarsins.
KA hafnaði í öðru sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð en Hallgrímur tók við liðinu af Arnari Grétarssyni áður en síðasta tímabil kláraðist. Hann var þar áður aðstoðarþjálfari Arnars.
Hallgrímur er spenntur fyrir komandi tímabili. „Við erum búnir að fá inn flotta leikmenn sem henta okkur vel. Það duttu nokkrir út og það hafa komið sprækir menn inn í staðinn. Við teljum okkur vera með breiðari hóp í fyrra og erum við ánægðir með það. Við erum vel undirbúnir."
KA hefur misst Nökkva Þeyr Þórisson frá síðasta tímabili, en hann var algjörlega magnaður. Samt sem áður stefnir liðið á að vera með í titilbaráttunni. Hallgrími finnst skrítið hvað liðið er lítið með í umræðunni þegar talað er um titilkandídata.
„Við ætlum okkur að vera í toppbaráttu og ég get sagt það í svona léttu gríni að mér finnst það sérstök umfjöllun að það er aldrei minnst á KA í fyrra, bara hvað Breiðablik voru góðir - sem þeir voru - og hvað Víkingar voru að pressa á þá," sagði Hallgrímur.
„Mér finnst það mjög kómískt. Við enduðum fyrir ofan Víking, fimm stigum fyrir ofan þá. Og það er ekki minnst á KA. Það er bara talað um hvað Víkingar voru nálægt því að berjast við Breiðablik. Umfjöllunin var rosalega sérstök hvað þetta varðar. Við ætlum okkur að vera í toppbaráttu og ætlum að reyna að vinna þetta mót. Markmið félagsins er að vera allavega í Evrópukeppni."
„Við vorum gríðarlega flottir í fyrra. Við vitum að við höfum gæðin," sagði Hallgrímur.
Komnir
Birgir Baldvinsson frá Leikni (var á láni)
Harley Willard frá Þór
Ingimar Torbjörnsson Stöle frá Viking
Kristoffer Forgaard Paulsen á láni frá Viking
Pætur Petersen frá HB í Færeyjum
Farnir
Bryan Van Den Bogaert til Kasakstan
Gaber Dobrovoljc til Slóveníu
Hallgrímur Jónasson (orðinn þjálfari liðsins)
Nökkvi Þeyr Þórisson til Beerschot
Hægt er að hlusta á allan útvarpsþáttinn í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir