Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad, er til umfjöllunar í fyrsta þættinum í þáttaröðinni Áskorun sem er í sýningu hjá Sjónarpi Símans Premium þessa dagana. Um er að ræða íþróttaþætti í umsjón Gunnlaugs Jónssonar.
Við klippingu á þættinum datt út atriði þar sem Freyr Alexandersson segir magnaða sögu um Elísabetu frá því að hún stýrði Val á sínum tíma. Freyr var aðstoðarþjálfari Vals á þessum árum.
Elísabet var staðráðinn í að gera Val að Evrópumeisturum árið 2008 og leitaði að liðsstyrk erlendis. Fyrirliði nígeríska landsliðsins var á leið til félagsins en þá vantaði fjármagn.
Freyr segir frá hitafundi hjá Elísabetu og Berki Edvardssyni, formanni Vals. Þar sem ekki var til fjármagn sagðist Elísabet ætla að safna sjálf fyrir leikmanninum.
„Daginn eftir hringir hún í mig og spyr mig hvort ég sé tilbúinn að kaupa með henni pylsuvagn til að fjármagna kaupin á leikmanninum. Við skoðuðum það alvarlega en sem betur fer keypti ég ekki pylsuvagn með Elísabetu Gunnarsdóttur," sagði Freyr og hló en innslagið má sjá í heild hér að ofan.
Hægt er að horfa á þáttinn Áskorun í Sjónvarpi Símans Premium. Um er að ræða íþróttaheimildaþætti í umsjón Gunnlaugs Jónssonar. Í næsta þætti Áskorun verður sögð saga sundmannsins Inga Þór Jónssonar frá Akranesi sem fór á Ólympíuleikana árið 1984.
Athugasemdir