Fylkir tapaði gegn KA á Akureyri í dag og hefur aðeins fengið eitt stig út úr fyrstu leikjunum. Fótbolti.net ræddi við Rúnar Pál Sigmundsson þjálfara liðsins eftir leikinn.
Lestu um leikinn: KA 4 - 2 Fylkir
„Ég var hrikalega óánægður með fyrri hálfleikinn, við mættum ekki til leiks og fengum mjög ódýr mörk á okkur. Við vorum hrikalega öflugir í seinni hálfleik, í stöðunni 3-2 fáum við tækifæri til að jafna leikinn en í staðin fara þeir upp og skorað 4-2. Vonbrigði með fyrri en hrikalega ánægður með seinni hálfleikinn af öllu leyti," sagði Rúnar Páll.
Þórður Gunnar Hafþórsson var tekinn af velli eftir hálftíma leik og Ómar Björn Stefánsson kom inn á í hans stað.
„Leikmaðurinn sem var inn á var ekki að fúnkera og þess vegna gerum við skiptingu. Þetta er ekki flóknara en það," sagði Rúnar Páll.
Rúnar var svekktur að fá ekki meira út úr leiknum.
„Auðvitað er það áhyggjuefni því við erum í þessu til að safna stigum. Það er hundleiðinlegt, við erum búnir að spila marga leiki fínt og fáum ekkert út úr þeim. Ég hefði viljað fá allavega eitt stig í dag miðað við hvernig við spiluðum seinni hálfleikinn en við fengum það ekki og það þýðir ekkert að væla," sagði Rúnar Páll.