Kylian Mbappe er þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu franska landsliðsins og þegar kominn með 300 mörk á ferlinum þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára gamall.
Mbappe skoraði þrennu í 14-0 sigri liðsins á Gíbraltar á dögunum og er nú með 46 mörk, aðeins tíu mörkum minna en Olivier Giroud, sem er sá markahæsti.
Thierry Henry, sem er eitt af helstu átrúnargoðum Mbappe, er annar markahæstur, en hann hrósaði Mbappe í hástert á dögunum og segir mikla ábyrgð liggja á herðum hans.
„Það er hreinlega ótrúlegt hvað þessi litli er fær um að gera, en vandamálið er það að þegar þú ert svona góður þá sér fólk betur þegar þú klúðrar eða ert ekki nógu góður. Við búumst við miklu af honum en hann hefði ekki átt að verða svona góður! Öllu gríni sleppt þá getum við verið ánægð að hann sé franskur,“ sagði Henry.
Mbappe er kominn með 300 mörk á ferlinum en hvað getur hann skorað mörg áður en ferillinn klárast?
„Hvað getur hann náð langt? 1000 mörk. Nei, ég er að fara fram úr sjálfum mér, en í hreinskilni sagt þá er það Kylian sem ákveður það,“ sagði Henry.
Athugasemdir