Eftir glæstan leikmannaferil hefur Björn Daníel Sverrisson ákveðið að snúa sér að þjálfun. Hann var nýverið kynntur sem nýr þjálfari Sindra og skrifaði þar undir þriggja ára samning.
Björn tengist fjölskylduböndum á Höfn í Hornafirði, en liðið leikur í 3. deild. Hann segir þjálfaradrauminn hafa blundað í honum í þó nokkur ár, en Fótbolti.net ræddi við hann fyrr í dag.
„Ég ákvað að fara út í þjálfun núna, það kom áhugi á því seinni hluta ferilsins. Ég er nú með ágætar tengingar þarna fyrir austan. Þeir hafa pikkað og potað í mig síðustu ár. Eftir að ég fékk þennan áhuga á þjálfun fannst mér þetta bæði skemmtileg áskorun og spennandi tækifæri. Ásamt því að fara inn í umhverfi þar sem er ekki jafn mikil pressa á manni og er í hinum efri deildunum. Maður fær kannski að prófa aðeins meira. Ég ákvað að kýla bara á þetta og er spenntur fyrir þessu.
Hvers vegna Sindri?
„Konan mín er frá Höfn í Hornafirði. Ég er búinn að vera mikið þarna síðustu tíu ár. Hef oft nýtt frítímann í að fara austur. Tengdaforeldrarnir búa þarna og bróðir hennar líka. Þannig að ég er ekki að flytja þarna með ekkert bakland. Það verður fínt fyrir mig að geta hent krökkunum í pössun ef að þess þarf. Baklandið er líka stór partur af þessari ákvörðun. Fínt að flytja þar sem maður á fjölskyldu og farinn að eignast vini.“
Þurftiru að hugsa þig lengi um?
„Ég myndi ekki segja að ákvörðunin hafi verið erfið nema að því leytinu til að þetta er ákveðið skref. Búinn að búa í bænum frá því að ég var lítill strákur. Það er stór ákvörðun að flytja langt út á land og að taka fjölskylduna með, þegar maður er búinn að festa rætur. Það var kannski stærsta ákvörðunin í þessu, en ekki að taka við Sindra. Það fannst mér alltaf spennandi.“
Var það erfið ákvörðun að leggja skóna á hilluna?
„Það var ekki erfið ákvörðun að hætta í fótbolta. Ég var eiginlega búinn að ákveða það eftir síðasta ár. En þá leið mér ágætlega í skrokknum og ég ákvað að taka eitt ár í viðbót. Þá kom í ljós að ég væri með brjóskskemmdir í hnénu og var búinn að þurfa að fara í sprautur og ýmislegt.
Ég ákvað þetta eiginlega bara í janúar. Eftir það þá var árið mun auðveldara, vitandi það að ég væri að fara hætta. Það gerði manni kleift að njóta leiksins enn meira frekar en að þetta væri eitthvað þvingað.“
„Ég, eins og eflaust flestir, á ekkert eftir að sakna þess að fara á æfingu í janúar í mínus tólf gráðum, hlaupandi um á glerhörðu gervigrasi og vera að drepast í líkamanum í viku á eftir. Ég held að þetta sé meira eins og flestir tala um; að mæta í klefann, fíflast og að tala við menn. Ég finn mér örugglega einhverja góða til að sitjast með á þjálfaraskrifstofunni til að fíflast með. Þetta var ekki ákvörðun eins og staðan er núna. Svo gæti vel verið að það komi einhver eftirsjá þegar nær dregur sumri.“
Nánar var rætt við Björn og er mögulegt að nálgast viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.























