Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
   mið 20. desember 2023 18:33
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sammi ósáttur við Ísafjarðarbæ - „Þetta er bara ekki boðlegt!"
Mynd af æfingavellinum seinni partinn í dag.
Mynd af æfingavellinum seinni partinn í dag.
Mynd: Aðsent
Sæti í efstu deild fagnað.
Sæti í efstu deild fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Aðsent
Það leit vel út í haust og framan af vetri að æfingaaðstaðan á Ísafirði væri stórbætt frá síðustu árum. Vestri fékk nýtt gervigras á æfingavöllinn. Það hins vegar hjálpar takmarkað ef völlurinn er snævi þakinn.

Æfingar hafa fallið niður að undanförnu þar sem ekki hefur verið hægt að æfa. Fótbolti.net ræddi við Samúel Samúelsson sem er formaður Vestra. Hann var ekkert alltof kátur með Ísafjarðarbæ.

„Við erum að æfa í sköflum og erum eiginlega ekkert að æfa fótbolta sem er alveg óþolandi. Það var lofað öllu fögru þegar við komumst upp en svo bara gerist ekkert."

„Staðan er þannig að það er snjór yfir æfingavellinum. Í fyrradag voru komnir góðir 30-40 sm af snjó, það var blásið af vellinum en þá eru 8 sm eftir. Þú spilar ekki fótbolta í 8 sm. Það var keypt tönn framan á blásturstækið og völlurinn er ekki hreinsaður með því. Þ.a.l. erum við bara í snjó og erum ekkert að æfa fótbolta."

„Það er bara eftir dúk og disk hvort að völlurinn er hreinsaður eða ekki. Bærinn vinnur t.d. ekki eftir hádegi á föstudögum. Föstudags- og laugardagsæfingin í síðustu viku féll niður út af snjó. Það var æfing á mánudaginn, völlurinn blásinn en ennþá 8 sm eftir, vantaði að skafa völlinn. Við erum bara ennþá í snjóbolta eins og við vorum síðasta vetur."


Það er sem sagt til blásturstæki og einhver tönn til að skafa völlinn. En af hverju er hún ekki alltaf notuð?

„Vegna þess að Ísafjarðarbær er ekki með það í föstum skorðum hver á að gera þetta og hvernig á að gera þetta. Við höfum sóst eftir því að við fáum að ráða mann í vinnu sem bærinn borgar sem myndi bara sjá um svæðið. Ég er að vona að þetta skýrist áður en desember lýkur því að þetta gengur engan veginn svona."

„Það er bara búið að setja eitt mark upp á vellinum og það eru ekki komnir hornfánar. Þetta er bara ekki boðlegt!"


Það á sem sagt að vera í verkahring bæjarfélagsins að græja þetta? Þið gætuð ekki hent upp marki og hornfánum?

„Bærinn á völlinn. Við getum ekki hent upp hornfánum því það er ekki búið að mæla fyrir þeim, það eru ekki komnar línur á völlinn. Ef þetta væri bara að stinga þeim niður þá væri þetta minnsta málið."

„í fyrra, þegar gervigrasið var ónýtt, þá mátti fara með öll tæki inn á völlinn. Við sömdum við verktaka í fyrra og hann hélt grasinu fyrir okkur auðu. Þó að það væri oft frosið þá var allavega enginn snjór. Við erum því eiginlega í verri aðstæðum en á sama tíma í fyrra þrátt fyrir að vera komnir með nýtt gras."


Öll tæki og tól eru til staðar en það vantar einstakling í að sjá um að völlurinn sé auður. „Það vantar skipulag á hver eigi að sjá um þetta og hvenær."

Vestri er á leið í Bestu deildina á nýju ári og það setur strik í reikninginn að geta ekki æft fótbolta.

„Við höfum fundað og rætt við bæinn. Frá 5.-10. janúar eru allir leikmenn Vestra komnir vestur og þá verður þetta bara að vera í lagi. Við erum að fara í deild þar sem við erum sennilega taldir vera lélegasta liðið. Við megum ekki við því að geta ekki æft eins og hin liðin," sagði Sammi.

Tímabilið í Bestu deildinni hefst í byrjun apríl. Fyrsti leikur Vestra verður gegn Fram þann 7. apríl á útivelli.
Athugasemdir
banner
banner
banner