
„Bara gríðarlega svekktur að hafa ekki náð í þrjú stig því mér fannst við hafa gert nóg til þess.“ sagði Davíð Smári, þjálfari Vestra, svekktur eftir 2-2 dramatískt jafntefli gegn Gróttu.
Lestu um leikinn: Grótta 2 - 2 Vestri
Þú hlýtur að vera sáttur með frammistöðuna í dag?
„Já, mér finnst við hafa verið að bæta okkur milli leikja og frábær leikur á móti Skaganum og frábær leikur hjá okkur í dag. Enn og aftur er ég bara ótrúlega svekktur að hafa ekki náð í þrjú stig í dag.“
Þið fáið á ykkur tvö skítamörk, hvað fannst þér þið geta gert betur?
„Flest mörk koma eftir mistök og við gerðum svo sannarlega nokkur mistök hér í dag. Við fáum svo sannarlega á okkur klaufaleg mörk. Hinsvegar á hinum enda vallarins skorum við mark sem er löglegt og dómarinn dæmir boltann úr leik. Samkvæmt því sem ég heyri var boltinn ennþá inn í leik. Svo fannst mér við líka eiga að fá víti líka. Við vorum samt sem áður að spila gegn mjög sterku Gróttu liði. Mér fannst fyrri hálfleikur vera full taktískur og mjög lítið um opnanir.“
Gaf dómarinn þér einhverjar útskýringar á þessum atvikum þar sem þér fannst þið eiga fá víti og mark?
„Já hann vill meina að þetta hafi verið lögleg tækling í atvikinu þar sem ég vil fá víti og síðan vildi hann meina að boltinn hafi farið fyrir aftan endalínu í seinna skiptið. Það er bara eins og það er.“
Benedikt Warén kemur inn með miklum krafti hér í dag, þú hlýtur að vera sáttum með hans innkomu hér í dag.
„Já bara frábær innkoma. Hann býr bara yfir þeim gæðum að hann á ekki að vera á bekknum í neinu liði en það segir líka til um hversu góður Balde er og hann var líka góður í dag.“ voru lokaorð Davíð Smára.
Viðtalið má finna í spilaranum hér að ofan.