Jorge Mendes, umboðsmaður úkraínska landsliðsmannsins Andriy Lunin, er að reyna sannfæra leikmanninn um að yfirgefa Real Madrid.
Lunin skrifaði undir hjá umboðsmannastofu Mendes í apríl og hefur hann unnið hörðum höndum síðan til að finna nýtt félag fyrir umbjóðanda sinn.
Úkraínumaðurinn var frábær með Madrídingum á síðasta tímabili en hann steig upp þegar Thibaut Courtois var meiddur og hjálpaði liði sínu að vinna bæði La Liga og Meistaradeild Evrópu.
Lunin hefur verið orðaður við Chelsea og Liverpool. Chelsea vill fá Lunin til að veita Robert Sanchez samkeppni í markinu á meðan Liverpool þarf mann til að berjast við Alisson, en Caoimhin Kelleher gæti verið á förum og þá er Adrian farinn frá félaginu.
Miðað við viðtal sem Marca tók við Lunin á dögunum virðist þó ekki líklegt að hann sé tilbúinn að fara frá Real Madrid, en hann segist ánægður og vill vera áfram.
Athugasemdir