Arsenal hefur áhuga á Rogers - Elliott færist nær Leipzig - Forest hefur áhuga á Carmona og Cash
   fim 21. ágúst 2025 20:05
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Auðvelt á Akureyri - Stjarnan stöðvaði FH
Kvenaboltinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tveir leikir fóru fram í Bestu deild kvenna í dag þar sem Þór/KA lagði FHL auðveldlega að velli.

Þór/KA 4 - 0 FHL
1-0 Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir ('2)
2-0 Karen María Sigurgeirsdóttir ('19)
3-0 Sandra María Jessen ('53)
3-0 Sandra María Jessen ('70, misnotað víti)
4-0 Bríet Fjóla Bjarnadóttir ('92)

Lestu um leikinn: Þór/KA 4 - 0 FHL

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir tók forystuna snemma leiks fyrir heimakonur á Akureyri eftir hornspyrnu og tvöfaldaði Karen María Sigurgeirsdóttir forystuna á 19. mínútu.

Hún skoraði með glæsilegu skoti af um 18 metra færi þar sem hún snéri boltann upp í fjærhornið.

Þór/KA var talsvert sterkari aðilinn og komst nokkrum sinnum nálægt því að bæta við forystuna áður en röðin var komin að Söndru Maríu Jessen í upphafi síðari hálfleiks. Hún skoraði af stuttu færi eftir hárnákvæma fyrirgjöf frá Huldu Ósk Jónsdóttur.

FHL átti sínar rispur en Þór/KA var sterkari aðilinn og klúðraði Sandra María af vítapunktinum á 70. mínútu.

Bríet Fjóla Bjarnadóttir innsiglaði sigur heimakvenna með laglegu þrumuskoti í uppbótartímanum. Lokatölur 4-0.

Þór/KA er áfram í fimmta sæti deildarinnar, með 21 stig eftir 14 umferðir. FHL er á botninum með 3 stig.

Stjarnan 2 - 2 FH
1-0 Birna Jóhannsdóttir ('19)
1-1 Arna Eiríksdóttir ('76)
1-2 Snædís María Jörundsdóttir ('82)
2-2 Berglind Freyja Hlynsdóttir ('85)

Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 2 FH

Stjarnan og FH áttust þá við í nágrannaslag í Garðabæ þar sem heimakonur tóku forystuna eftir 19 mínútur. Birna Jóhannsdóttir skoraði með föstu skoti eftir frábæran undirbúning frá Úlfu Dís Kreye Úlfarsdóttur.

Stjarnan var sterkari aðilinn í bragðdaufum fyrri hálfleik þar sem Garðbæingar gerðu mjög vel að loka á hægan sóknarleik FH-inga. Þær hafnfirsku voru ólíkar sjálfum sér og hélt sama staða áfram í síðari hálfleik.

Stjarnan skapaði hættulegustu færin en FH náði að gera jöfnunarmark gegn gangi leiksins. Arna Eiríksdóttir fyrirliði stangaði þá hornspyrnu Andreu Ránar Snæfeld Hauksdóttur í netið.

Staðan var því orðin jöfn, 1-1, eftir 76 mínútur en Stjörnukonur voru áfram sterkari aðilinn og endurheimtu forystuna. Snædís María Jörundsdóttir fylgdi marktilraun Fanneyjar Lísu Jóhannesdóttur með marki.

Gestirnir voru þó ekki á því að gefast upp. Berglind Freyja Hlynsdóttir jafnaði metin á 85. mínútu með auðveldu marki eftir langan bolta upp völlinn.

Lokatölur 2-2 og er FH áfram í öðru sæti eftir jafnteflið, núna fimm stigum á eftir toppliði Blika. Stjarnan hefur átt erfitt uppdráttar í sumar og er að berjast um sæti í efri hluta deildarinnar fyrir tvískiptingu.

Stjarnan átti mjög góðan leik gegn sterku titilbaráttuliði FH.
Athugasemdir
banner