Arsenal hefur áhuga á Rogers - Elliott færist nær Leipzig - Forest hefur áhuga á Carmona og Cash
   fim 21. ágúst 2025 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Keflavík spilar næstu heimaleiki í gulum búningum
Leikmenn Keflavíkur í treyjunum.
Leikmenn Keflavíkur í treyjunum.
Mynd: Keflavík
Keflavík í samstarfi við Píeta samtökin hefur hafið sölu á sérstakri treyju þar sem allur ágóði rennur til Píeta. Samtökin vinna mikilvægt starf í forvörnum gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við einstaklinga og aðstandendur þeirra.

Treyjan verður notuð af meistaraflokkum liðanna í völdum leikjum í sumar, nú fyrst í Lengjudeild karla gegn Völsungi á HS orku velli næstkomandi laugardag.

Ragnar Aron Ragnarsson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Keflavíkur segir málið þarft og alltaf eiga við. „Því miður eru alltof margar fjölskyldur sem þekkja þetta. Faðir minn hefði orðið 63 ára á þessu ári, en hann féll fyrir eigin hendi árið 2002. Stöðug áminning er nauðsynleg að mínu mati og þarft að halda á lofti umræðu um andlega heilsu. Við viljum með þessum hætti láta gott af okkur leiða og styðja við bakið á þessum öflugu samtökum."

„Næstu heimaleikir hjá okkur verða leiknir í gulum Keflavíkurbúningum til þess að vekja athygli á Píeta samtökunum. Búningarnir verða seldir í takmörkuðu magni og rennur allur ágóði til Píeta," segir á vefsíðu Keflavíkurbúðarinnar þar sem treyjan er seld.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.

Þá er hægt að nálgast upplýsingar um Píeta samtökin hérna.

Athugasemdir
banner