Þetta var geggjað, góður sigur. Langt síðan við unnum þannig þetta var tímabært, segir Valgeir Valgeirsson, leikmaður Breiðabliks, eftir 2-1 sigur á Virtus frá San Marínó í Sambandsdeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 1 Virtus
Margir hefðu kannski búist við stærri sigri Breiðablik en þeir þurfa að láta eins marks forystu duga komandi inn í seinni leikinn.
„Auðvitað erum við svekktir að fara ekki með betri úrslit út en sigur er sigur og við erum ekkert eðlilega ánægðir að ná sigri eftir langan tíma án sigurs."
Virtus komst yfir strax á 11. mínútu þegar Stefan Scappini skoraði úr vítaspyrnu.
„Það fór ekkert um mig. Við vorum búnir vera með tökin frá upphafi leiks. Ég veit að markið kom snemma en við vissum að við myndum alltaf skora í þessum leik þannig ég var ekkert stressaður eða neitt svoleiðis. Þetta var auðvitað svekkjandi en við komum til baka og unnum þennan leik."
Valgeir skoraði markið sem jafnaði leikinn og sótti vítaspyrnuna sem varð að sigurmarkinu. Mörgum þykir Valgeir hafa farið full auðveldlega niður þegar vítaspyrnan var dæmd.
„Ef mönnum finnst það þá þurfa þeir bara að skoða útsendinguna betur, þetta var pjúra snerting. Öll vítin sem ég hef fengið dæmd í sumar hafa verið víti og ég er harður á því. Ef maður fær snertingu afhverju ekki þá að fara niður?
Milsami Orhei frá Moldóvu fór einnig með eins marks forskot til San Marínó í seinasta leik en það dugði ekki þar sem Virtus vann seinni leik liðanna 3-0. Blikar mega ekki því ekki vanmeta verkefnið sem framundan er.
„Það er ekkert vanmat hjá okkur og við ætlum bara að vera með hausinn 100 prósent, ná í sigur og komast áfram."
Athugasemdir