Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 21. nóvember 2020 20:50
Brynjar Ingi Erluson
MLS: Varnarmaður Orlando hetja eftir að hafa varið víti frá Gumma Tóta
Rodrigo Schlegel ver vítið frá Gumma Tóta
Rodrigo Schlegel ver vítið frá Gumma Tóta
Mynd: Getty Images
Orlando City er komið áfram í undanúrslit austurdeildarinnar í MLS-deildinni eftir að hafa lagt New York City FC í vítaspyrnukeppni en það var argentínski varnarmaðurinn Rodrigo Schlegel sem stal fyrirsögnunum.

Portúgalski vængmaðurinn Nani skoraði úr vítaspyrnu fyrir Orlando á 5. mínútu leiksins en gestirnir frá New York jöfnuðu aðeins mínútu síðar.

Undir lok leiksins fékk Ruan, varnarmaður Orlando, að líta rauða spjaldið og spiluðu því heimamenn manni færri út leikinn en staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma. Guðmundur Þórarinsson kom inná sem varamaður á 115. mínútu í framlengingu.

Ekkert var skorað í framlengingu og því vítaspyrnukeppni eina leiðin til að fá niðurstöðu í leikinn og þar var dramatíkin mögnuð. Bæði lið voru búin að taka þrjú víti og hafði New York klúðrað einni spyrnu.

Pedro Gallese, markvörður Orlando, varði fjórðu spyrnuna, en VAR skoðaði vítið og þar kom í ljós að Gallese færði sig af línunni og fékk hann rauða spjaldið í kjölfarið en þetta var önnur áminning hans í leiknum.

Þar kemur Rodrigo Schlegel, varnarmaður Orlando, inn í söguna en hann fór í markið. New York skoraði örugglega framhjá honum úr fjórðu spyrnunni og þá klúðraði Nani fjórðu spyrnu Orlando.

Útlitið ekki gott fyrir Orlando. Gummi Tóta var næstur á punktinn en Schlegel sá við honum. Markvarslan var ekkert svakalega falleg en dugði til því Orlando skoraði úr næsta víti og tryggði sig áfram.

Hægt er að sjá vörsluna hér fyrir neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner