Antoine Semenyo, Bruno Fernandes, Nicolas Jackson og fleiri koma við sögu.
banner
   sun 21. desember 2025 17:45
Ívan Guðjón Baldursson
Jói Berg með tvennu - Lagði upp gegn Celtic
Mynd: Al Dhafra
Mynd: Aberdeen
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Al-Dhafra sem heimsótti Al-Jazira í efstu deild í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag.

Al-Dhafra tapaði viðureigninni 4-2 en Jóhann Berg skoraði bæði mörk liðsins í tapinu. Al-Dhafra er í neðri hluta deildarinnar með 12 stig eftir 9 umferðir.

Jay-Dee Geusens lagði þrjú mörk upp fyrir heimamenn og komst egypski miðjumaðurinn Mohamed Elneny, sem var hjá Arsenal í átta ár, á blað. Nabil Fekir, fyrrum leikmaður Lyon og Real Betis, var í byrjunarliði Al-Jazira.

Kjartan Már Kjartansson kom þá inn af bekknum í síðari hálfleik er Aberdeen heimsótti Skotlandsmeistara Celtic í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem hann fær að spreyta sig í keppnisleik eftir félagaskiptin til Skotlands.

Staðan var 1-0 fyrir Celtic og fékk leikmaður Aberdeen rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks. Celtic tókst ekki að auka forystuna þrátt fyrir mikla yfirburði og náði Aberdeen að gera jöfnunarmark skömmu eftir innkomu Kjartans.

Kjartani, 19 ára, var skipt inn ásamt Svíanum Kenan Bilalovic, 20 ára, og tengdu þeir saman sex mínútum síðar til að jafna metin. Bilalovic nýtti góða stungusendingu Kjartans til að skora framhjá Kasper Schmeichel.

Heimamenn í Celtic skiptu þó um gír í kjölfarið og stóðu uppi sem sigurvegarar gegn tíu andstæðingum, lokatölur 3-1.

Lúkas Petersson varði mark varaliðs Hoffenheim í þriðju efstu deild í Þýskalandi . Hoffenheim vann 3-1 gegn Wehen og situr í sjöunda sæti deildarinnar, með 31 stig eftir 19 umferðir. Liðið er aðeins þremur stigum frá umspilssæti fyrir næstefstu deild eftir þennan sigur og fimm stigum á eftir toppsætinu.

Að lokum voru Kolbeinn Birgir Finnsson og Nökkvi Þeyr Þórisson ónotaðir varamenn í efstu deild hollenska boltans. Liðsfélagar Kolbeins í Utrecht töpuðu naumlega heimaleik gegn stórliði PSV Eindhoven á meðan liðsfélagar Nökkva frá Rotterdam unnu á útivelli gegn FC Volendam.

Utrecht og Sparta eru jöfn í Evrópubaráttunni, með 23 stig eftir 17 umferðir.

Al-Jazira 4 - 2 Al-Dhafra
1-0 K. Al-Hammadi ('8)
2-0 Vinicius Mello ('20)
2-1 Jóhann Berg Guðmundsson ('45+1)
3-1 Mohamed Elneny ('67)
4-1 Bruno ('77)
4-2 Jóhann Berg Guðmundsson ('86)

Celtic 3 - 1 Aberdeen

Hoffenheim II 3 - 1 Wehen

Utrecht 1 - 2 PSV Eindhoven

Volendam 0 - 1 Sparta Rotterdam

Athugasemdir
banner