Einar Orri Einarsson, leikmaður Keflavíkur, sýndi afar hótandi tilburði þegar hann var rekinn af velli í 1-1 jafntefli liðsins gegn FH í Pepsi-deildinni í kvöld.
Einar Orri fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 87. mínútu leiksins fyrir að hjóla í Böðvar Böðvarsson, ungan leikmann FH.
Ekki er vitað nákvæmlega hvers vegna Einar Orri veittist að Böðvari, en atvikið átti sér stað eftir að Hólmar Örn Rúnarsson hafði tæklað Einar, en tæklingin var vissulega mjög ljót.
Þegar Einar Orri gekk af velli, þá benti hann til Böðvars og renndi fingri yfir háls sinn, líkt og hann væri að gefa Böðvari merki þess efnis að hann ætlaði að skera FH-inginn á háls. Þetta sást greinilega á sjónvarpsmyndum á meðan leik stóð og enginn vafi á því hvað hann var að gera. Hann hrækti svo á varamannaskýli FH er hann gekk af velli.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net urðu svo enn frekari eftirmálar þegar flautað hafði verið til leiksloka. Allt sauð upp úr og Einar Orri og Böðvar áttust við, og þurfti að ganga á milli þeirra.
Lögregla og dómarateymið fylgdist með öllu því sem átti sér stað eftir leikinn, en ljóst er að þetta mál er litið mjög alvarlegum augum. Má vel túlka hegðun Einars Orra sem líflátshótun, en hann neitaði að tjá sig við fjölmiðla eftir leikinn.
Hér má sjá brot af umræðunni um þetta atvik á Twitter:
Haraldur Logi Hringsson:
Ef að KSI dæmir ekki Einar Orra í margra leikja bann fyrir hálsbendinguna. Þá er eitthvað mikið að.
Anton Ingi Leifsson:
Hrækti Einar Orri bara á skýlið hjá FH? Mesta sturlun sem ég hef séð!
Freyr Brynjarsson:
Einar Orri að hóta fh-ingum dauða. Heilbrigður í alla staði!! #fotbolti
Stefán Hirst:
Nei ég meina var ég að sjá rétt? Var Einar Orri ekki að hóta Böðvari lífláti? #geðsjúklingur
Haukur Heiðar Hauksson í Dikta:
Að leika það að “skera leikmann á háls” og hrækja á bekk andstæðings á að vera minnst 10 leikja bann #sturlun #my2cents #kefFH #Pepsi365
Athugasemdir