Liverpool gæti nýtt sér ákvæði í samningi Semenyo- Ungur miðjumaður á blaði hjá Liverpool og Man Utd - West Ham vill Strand Larsen
   mán 22. desember 2025 16:24
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Hefur áhyggjur eftir risastóra skelli hjá U15 - „Ágætis vakning fyrir okkur"
Jörundur Áki Sveinsson er yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ.
Jörundur Áki Sveinsson er yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum gegn Spáni.
Úr leiknum gegn Spáni.
Mynd: Fannar Karvel
Íslenski hópurinn.
Íslenski hópurinn.
Mynd: Fannar Karvel
Mynd: Fannar Karvel
Mynd: Fannar Karvel
Mynd: Fannar Karvel
Mynd: Fannar Karvel
Íslenska U15 landslið drengja tók þátt í þróunarmóti á vegum UEFA á dögunum. Liðið spilaði þrjá leiki, tapaði tveimur þeirra stórt og gerði eitt jafntefli. Liðið tapaði 7-0 gegn Englandi, gerði næst 1-1 jafntefli við Spán og tapaði lokaleiknum 11-0 gegn Spáni.

Fótbolti.net ræddi við Jörund Áka Sveinsson, yfirmann fótboltamála hjá KSÍ og hann var spurður út í úrslitin.

Mættu bestu þjóðum Evrópu
„Það kemur okkur ekkert brjálæðislega á óvart að við töpum þessum leikjum, en að tapa með þetta miklum mun er náttúrulega áhyggjuefni. Það segir okkur að staða okkar er ekki nægilega góð á mörgum sviðum leiksins. Við vorum að spila við bestu þjóðir í Evrópu: England, Spán og Ítalíu. Þessar þjóðir eru með leikmenn sem eru í akademíum."

„Á Englandi ertu með leikmenn í Arsenal, Man City, Liverpool, United o.s.frv. Í ítalska hópnum eru leikmenn frá Juventus, Inter og AC sem dæmi. Á Spáni koma leikmenn frá Real Madrid, Barcelona, Valencia og Sevilla svo eitthvað sé nefnt. Þarna eru strákar sem eru komnir miklu lengra líkamlega en okkar strákar og eru að spila á miklu, miklu, miklu hærra stigi en okkar drengir. Þarna eru strákar fæddir 2011 en eru jafnvel að spila með U19 ára liðum hjá sínum félögum. Á meðan eru okkar strákar að spila í 4. flokki. Það er alveg rosalegt stökk þarna á milli."

„Auðvitað erum við þarna í riðli með liðum sem við erum kannski ekki beint að búast við að vinna, en það er gott að máta sig við þá bestu, en töpin eru alltof stór."


Þurfa að spila fleiri leiki á þessu sviði
„Ég var mjög ánægður að sjá liðið koma til baka eftir 7-0 tapið og gera jafntefli við Ítalíu í öðrum leik. Við vorum fyrir fram að vonast eftir því að vera inni í leikjunum og strákarnir sýndu góða frammistöðu gegn Ítölum; sýnt hjarta og farið eftir gildunum sem við viljum standa fyrir. En svo kemur þessi skellur gegn Spáni."

„Við erum líka að spila miklu færri leiki í þessum aldursflokki en hin liðin. Við þurfum að fjölga verkefnum fyrir þessa stráka, þurfum fleiri leiki fyrir þennan aldurshóp á svona sviði. Það er það sem ég tek helst út úr þessu. Fleiri tækifæri fyrir okkar lið og leikmenn að máta sig við bestu leikmenn heims og sjá hvað það er sem þarf til að ná þetta langt."


FIFA og UEFA skilja ekki
Líkamlegt atgervi andstæðinganna var talsvert betra en leikmanna Íslands. Eins og Jörundur segir eru þeir í akademíum hjá stórum félögum og fá þar betra aðhald. En er KSÍ að skoða hvernig sé hægt að bæta líkamlegt atgervi íslenskra leikmanna á þessum aldri?

„Við höfum verið að skoða þetta, við erum undir eftirliti FIFA og UEFA varðandi ákveðna þætti og þessi samtök skilja ekki af hverju við erum ekki byrjuð fyrr að sérhæfa okkur og fara meira inn í akademíska nálgun. Maður reynir að útskýra það þannig að kúltúrinn okkar sé öðruvísi, uppsetningin er þannig að allir geta verið með, félögin eru fjármögnuð meira og minna af sveitarfélögunum og það er þjónusta við alla. Það að fara taka einhverja út 12-14 ára er ekki vel séð á Íslandi og hefur ekki þótt hingað til."

„En okkur hefur alveg verið bent á það, og kannski endurspeglast það best í þessum úrslitum, að ef við gerum ekki eitthvað, þá munum við dragast aftur úr. Það er ekkert að hjálpa til að deildirnar eru „gamlar", spilað á eldri leikmönnum og ungir leikmenn eiga oft á tíðum erfitt með að fá tækifæri. Það eru margir samverkandi þættir í þessu, en eitt af því við sem við höfum verið að skoða er líkamlegi þátturinn."

„Við höfum líka verið að skoða tæknilega þáttinn og ef maður horfir á þessi lið sem við vorum að spila við núna þá er tæknileg geta þeirra leikmanna langt, langt, langt um betri en okkar og eins með leikskilningurinn. Strákarnir okkar hérna heima eru kannski ekki að spila á því stigi sem hæfir þeim, gætu verið að spila á hærra stigi en margir þeirra eru ekki að fá tækifæri til að spila upp fyrir sig - stundum er það stefna eða pólitík innan félaganna sem kemur í veg fyrir það."


Meiri afreksvæðingu?
Er hægt að segja það hreint út að meiri afreksvæðing myndi skila meiri árangri í þessum aldursflokki og svo í kjölfarið líka?

„Við getum ekkert fullyrt um það, en ég held það sé alveg klárt mál að það myndi hjálpa okkur þó að við færum ekki nema aðeins meira í þá átt að vera meira að taka þessa bestu út úr menginu. Á meðan yrði líka haldið áfram að þjónusta hina krakkana sem eru stór hluti af félögunum. Það hefur oft á tíðum vantað að þora að taka þessi skref að taka þá út sem standa upp úr og framar, en maður heyrir að það séu einhver félög sem eru að horfa til þess og vilji gera það. Það er alltaf spurningin að hrökkva eða stökkva í þessu."

„Það hefur líka hjálpað okkur í gegnum tíðina að krakkarnir okkar eru að stunda fleiri en eina íþrótt upp að 15-16 ára aldri. Það hefur verið talið gott af mörgum, en margir segja að það eigi að byrja fyrr með sérhæfinguna. Það þarf að vega og meta allt í þessu, hvað sé rétt og hvað sé rangt."

„Það er kannski erfitt að horfa bara á þetta mót og þessi úrslit gegn þjóðum sem eru þær bestu í Evrópu. En við erum langt á eftir þessum þjóðum. Þetta eru líka kannski ekki þjóðirnar sem við erum alltaf að bera okkur saman við, en við viljum alltaf fá alvöru leiki, sama hver andstæðingurinn er. Það tókst á móti Ítalíu. Ítalirnir töpuðu svo einungis með einu marki gegn bæði Englandi og Spáni. Við höfum verið eitthvað fyrirkallaðir í þessum tveimur leikjum, stundum er það þannig."


Ágætis vakning
Þegar þið, starfsmenn KSÍ, sjáið úrslitin úr leikjunum. Var þetta sjokk?

„Ég skal alveg viðurkenna að það var sjokk að sjá 7-0 í hálfleik og 11-0 lokatölur, sérstaklega eftir 7-0 tap í fyrsta leik. Svo þegar ég fer að rýna í leikina þá var ekki eins og það væri verið að sundurspila okkur."

„Það er gott fyrir félögin að fá núna ábendingar eða endurgjöf eftir þetta verkefni, hvað við teljum þurfa og vanta. Vonandi er það líka fyrir þau að sjá hvað þau geta gert betur, hvað þau ætla að gera - í samstarfi með okkur."

„Þetta er ágætis vakning fyrir okkur sem stöndum að íslenskum fótbolta að við þurfum alltaf að vera á tánum og passa að gera allt sem við getum til að dragast ekki aftur úr. Við erum að skoða þetta hjá okkur og munum gera það með félögunum líka,"
segir Jörundur að lokum.
Athugasemdir
banner