Cristiano Ronaldo framherji portúgalska landsliðsins svaraði spurningum eftir 1-0 tap Portúgala gegn Dönum í 8-liða úrslitum Þjóðadeildarinnar.
Liðin mættust í Danmörku í fyrri leiknum en einvíginu lýkur í Portúgal í kvöld.
„Það er alltof mikil neikvæðni í kringum portúgalska landsliðið í fjölmiðlum. Mér er stundum sýnd þvílík vanvirðing með spurningunum sem ég fæ. Horfið á mig þegar ég svara spurningunum ykkar, ekki horfa á tölvurnar. Þið hafið tíma fyrir það seinna," sagði Ronaldo á fréttamannafundi í gær.
„Ég hef tapað 90 mínútna leikjum en ég hef aldrei tapað fótboltaleik í fyrri hálfleik. Seinni hálfleikurinn er á morgun (í kvöld). Ég átti slæman dag, ég komst ekki inn í leikinn. Liðið komst aldrei inn í leikinn. Svona gerist, þetta er hluti af lífinu."
Rasmus Höjlund skoraði eina mark Dana gegn Portúgal og fagnaði að hætti Ronaldo, en portúgalska stórstjarnan var stolt af fagninu.
„Þetta er ekkert vandamál, ég veit að hann var ekki að reyna að vanvirða mig með þessu fagni. Ég veit að ekki bara hann fagnar svona heldur fólk í öllum íþróttum og ég er stoltur að hafa haft þessi áhrif á íþróttaheiminn. Ég vona að á morgun verði það hann sem horfir á mig fagna!
„Þetta snýst samt ekki um að ég skori, ég vil bara sjá Portúgal sigra. Ef Portúgal sigrar án mín þá er ég ánægður. Ég mun berjast fyrir portúgalska merkinu til dauðadags. Ég verð mjög ánægður með sigur á morgun hver sem skorar mörkin."
Athugasemdir