Kvaratskhelia orðaður við Man Utd og Liverpool - Moyes fyrsti kostur Everton - Man Utd blandar sér í baráttuna um Mbeumo
   þri 23. maí 2017 14:44
Hafliði Breiðfjörð
Milos: Ég er pottþétt ekki lyginn, það er 100%
Víkingar völdu Cardaklija fram yfir mig
Milos Milojevic í fyrsta leik Víkings í Pepsi-deildinni í sumar, sigurleik gegn KR. Hann hætti svo eftir þriðju umferðina og er nú tekinn við Breiðabliki.
Milos Milojevic í fyrsta leik Víkings í Pepsi-deildinni í sumar, sigurleik gegn KR. Hann hætti svo eftir þriðju umferðina og er nú tekinn við Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haraldur Haraldsson er hér fyrir miðri mynd í stúkunni í leik Víkings og Breiðabliks í fyrrakvöld.
Haraldur Haraldsson er hér fyrir miðri mynd í stúkunni í leik Víkings og Breiðabliks í fyrrakvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hajrudin Cardaklija markmannsþjálfari Víkings lenti upp á kant við Milos.
Hajrudin Cardaklija markmannsþjálfari Víkings lenti upp á kant við Milos.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Raggi Óla
„Þetta eru stór orð sem framkvæmdastjóri félagsins er að gefa út sem hann hefur engan rökstuðning á bakvið. Ég myndi endilega vilja sjá rökstuðninginn," sagði Milos Milojevic við Fótbolta.net í dag en hann er ósáttur við Harald Haraldsson framkvæmdastjóra Víkings sem sagði við Vísi í dag að Milos hafi verið ægilega lyginn við félagið.

Milos hætti óvænt þjálfun liðsins á föstudaginn og staðfestir við Fótbolta.net í dag að ástæða þess hafi verið sú að Víkingur hafi ákveðið að taka málstað Hajrudin Cardaklija markmannsþjálfara fram yfir hann sjálfan. Hann tók svo við Breiðabliki í gær.

„Þetta segir meira um þá en mig því það var okkar samkomulag að við yrðum faglegir og töluðum frá hjartanu. Ég talaði frá hjartanu og mér þykir vænt um þetta félag. Þegar þeir svíkja loforð þá er það vesen."

Þeir tala alltaf illa um fólk
Milos sagði skilið við Víking á föstudaginn og segist sjálfur hafa heyrt fyrst í Blikum á laugardag og hann hefur blásið á kjaftasögur um að hann hafi sótt um starfið hjá Breiðabliki áður en hann hætti hjá Víkingum.

„Það er sannleikur að ég hafði ekki heyrt frá Blikum og ég var á leiðinni til Serbíu. En svo kemur áhugi og ég er atvinnuþjálfari og fer þangað sem ég er velkominn," segir Milos.

„Ég veit ekki hvort þeir vildu hafa þetta eins hjá nokkrum þjálfurum sem voru áður hjá þeim en luku ferlinum eftir að þeir hættu hjá Víkingi, Leifur Garðarsson og fleiri. Því þeir tala alltaf illa um fólk. Ég ber þessu fólki í Víkingi bara bestu orð, og félaginu líka og óska þeim alls hins besta. Það þarf að spyrja Halla hvort hann hafi verði heiðarlegur með öllu við mig. Ég er pottþétt ekki lyginn, það er 100%"

Vona að ég verði í 66 ár í næsta starfi og vinni alla titla
Milos kom fyrst til Víkings sem þjálfari í yngri flokkunum en varð síðar leikmaður, þá aðstoðarþjálfari og að lokum þjálfari liðsins. Hann var í heildina í 9 ár hjá félaginu áður en upp úr sauð á föstudaginn. Haraldur vildi meina í viðtalinu við Vísi að atburðarrásin hafi verið hönnuð og undrast hversu fljótt Milos var tekinn við Breiðabliki.

„Ég hafði ekki heyrt frá Breiðabliki fyrr en á laugardaginn og eftir að ég hætti var mér frjálst að velja mér lið þar sem ég vil vinna. Það var ekkert í gangi og ég hafði ekkert í höndunum. Þeir mega hugsa hvað sem er en það segir meira um þá en mig ef þeir tala svona um mig eftir 9 ár hjá félaginu. Ég ætla ekki að segja neitt slæmt orð um þá og óska þeim alls hins besta og vona að þeir viti hvað þeir eru að gera," segir Milos.

„Ég hugsa að það séu ekki margir sem myndu vinna í þessi ár eins og ég í því sem þeir buðu upp á. En ég vona að næsta starfi verði ég í 66 ár og vinni alla titla sem eru í boði."

„Ég var mjög ósáttur því ég á þetta ekki skilið og sérstaklega ekki því það er byggt á ágiskunum og hans pælingum. Þeir ættu að gleðjast yfir því að hafa verið með þjálfara sem er eftirsóttur í stað þess að vera með þjálfara sem er kannski rusl.

Þeir völdu milli mín og Cardakilja og völdu hann
Upphafið að endinum hjá Milos var í leik Víkings við Hauka í Borgunarbikarnum á fimmtudaginn þar sem honum lenti saman við Hajrudin Cardaklija markmannsþjálfara. Sá síðarnefndi var þá að skamma dómarann en Milos vísaði honum inn í varamannaskýlið. Eftir leik sagðist Cardaklija ætla að hætta hjá félaginu og á sáttafundi á föstudaginn rauk Milos út og ákvað að segja upp. Í kjölfarið fékk félagið Dragan Kazic aðstoðarþjálfara til að stýra liðinu tímabundið ásamt Cardakilja.

„Þeir völdu á milli mín og Cardaklija og völdu hann. Þeir völdu að bakka hann upp því þeir töldu mikilvægt að hafa markmannsþjálfara á meðan Róló (Róbert Örn Óskarsson markvörður liðsins) er meiddur. Ég á ekki að taka ábyrgð á þeirra mistökum. Þeir sýndu að þeir treystu honum frekar en mér og þá var erfitt fyrir mig að halda áfram. Þú sérð svo næsta skref í þessu, hann fékk stöðuhækkun og er tímabundið annar þjálfari liðsins ásamt Dragan Kazic," segir Milos.

„Ég vildi að hann ynni sína vinnu og hugsaði bara um markmann okkar liðs og markmann andstæðinganna. Hann vildi skipta sér af dómaranum og þjálfaraboxinu hinum megin. Hann er góður maður en gat ekki stjórnað sínu skapi í leikjum," hélt hann áfram um Hajrudin Cardaklija.

„Þeir verða að taka ábyrgð á þessu, það gæti verið að þetta hafi verið rétt skref hjá þeim að velja á milli mín og hans en ef mér er ekki sýnt traust þá á ég ekki að vera þarna," sagði hann að lokum.

Sjá einnig
- Framkvæmdastjóri Víkings: Milos ægilega lyginn í öllu þessu ferli
- Milos: Ég var á leiðinni heim - Sama um kjaftasögurnar
- Milos tekur við Breiðabliki (Staðfest)
- Milos um ágreininginn: Ég er mikill prinsippmaður
- Framkvæmdastjóri Víkings: Þjálfari hættir ekki útaf markmannsþjálfara
Athugasemdir
banner
banner
banner